Og þegar ég opnaði pósthólfið mitt og sá netfangið þitt innan um ruslpóstinn, þá hlýnaði mér pínulítið að innan. Ekki það að ég hafi ekki átt von á því að þú hefðir samband því það er nákvæmlega það sem þú gerir í hvert einasta sinn sem þú hefur ástæðu til að ætla að ég sé miður mín og einmana. Það hlýtur að styrkja karlmennskuímynd þína að sjá mig í rusli.
Æ, elskan. Það hlýtur að vera sársaukafullt að vera svona gagntekinn af minnimáttarkennd. Fara í hnút í hvert sinn sem kona skarar fram úr þér á einhverju öðru sviði en kökubakstri og blómaskreytingum, eða leyfir sér bara að hafa aðrar skoðanir en þú. Ég tala nú ekki um ef hún gerir sig seka um að ráðast á karlmennsku þína með því að færa sterkari rök fyrir máli sínu en þú ræður yfir. Það hlýtur að jafnast á við gott runk að fá tækifæri til að hugga slíka konu.
Málið er bara hjartað mitt að ég er ekkert í neinu rusli. Einhver gaur dömpaði mér og það er alltaf nett fúlt. En dömpsárið grær á tíunda hluta þess tíma sem sambandið stóð og það er nú svosem ekki eins hann hafi verið efni í sálufélaga. Þegar allt kemur til alls er hann bara venjulegur maður sem skildi mig ekki og hafði alls ekki í hyggju að leyfa mér að kynnast sálinni í sér. Bara indæll og almennilegur maður sem var svosem ósköp góður við mig, eins og hann er nú sennilega við allt fólk, en hafði það samt sem áður í sér að hegða sér eins og hann væri í hreiðurgerð og segja mér svo upp úr þurru að honum væri engin alvara með því. Bara svona ágætis maður sem þegar allt kemur til alls, kann ekki að meta neitt af því sem gerir mig að því sem ég er. Maður sem varð ástfanginn af rauða kjólnum mínum en ekki af karakternum. Og hvaða missir er svosem að sambandi sem byggir ekki á sterkari grunni?
Takk samt fyrir að bjóða mér öxl til að gráta á, þótt ég þurfi ekki á því að halda. Það var fallegt af þér og andartak fann ég pínulítið til mín. Fékk svona á tilfinninguna að það merkti að ég skipti þig sérstöku máli. En sama og þegið elskan, þú verður að leita eitthvert annað til að fá staðfestingu á karlmennsku þinni.
————————————–
Ekki vænti ég að þú sért Ósvífursdóttir?
Posted by: Anonymous | 4.06.2008 | 21:09:34