-Það er bara eitt sem ég skil ekki Eva mín, hvað sérðu eiginlega við hann?
-Hvað sé ég ekki við hann. Hann hefur grilljón kosti, ég held að ég sé búin að nefna a.m.k 100 þeirra.
-Jamm, hann er svona áreiðanlegur og góður gæi, fair enough, en í alvöru talað Eva, maðurinn er pappakassi. Ég skil hvað einhver húsamús myndi sjá við hann en hvað sérð ÞÚ við hann? ég meina… skilur hann þig?
-Nei. En menn sem skilja mig hafa ekki endilega reynst mér vel.
-Er hann skemmtilegur og skapandi?
-Vá, það mætti bara halda að það sé samstafan sk sem ákvarði manngildi fólks. Svei mér þá ef ég finn ekki hjá mér hvöt til að yrkja þríhendu.
-Þú ert að snúa út úr.
-Já. Ég er að því. Málið er bara að mig vantar ekkert karlmann til að skemmta mér. Mig vantar einhvern sem veitir mér öryggiskennd.
-Kommon, hvað er þetta eiginlega með þig og öryggi? Ég get bara ekki séð að þú sért rassgat öryggislaus.
Nei, ég er ekki öryggislaus. Ekki á meðan enginn ógnar öryggi mínu. En það er nú bara þannig að þegar manni fer að þykja vænt um einhvern, þá gefur maður honum vald til að særa sig, rugla rútínunni og hafa áhrif á áætlanir. Ástarsamband setur allt líf manns úr skorðum. Það hefur áhrif á allar manns ákvarðanir, félagslíf, jafnvel vinnutíma og fjárhag. Og þessvegna verður sá sem maður gefur slíkt vald að vera ólíklegur til að bregðast.
Það er ekki það að ég reikni beinlínis með því að hann geri það en bara vitneskjan um að hann geti það gerir mig viðkvæmari.