-Þú verður að virðurkenna að hann hefur góða afsökun.
-Jájá, þetta eru áreiðanlega ófyrirsjáanlegar, óviðráðanlegar og óumflýjanlegar aðstæður. Alveg eins og síðustu helgi, og helgina þar áður.
-Kannski ættirðu ekki að dæma hann svona hart Eva mín.
-Ég sagði að mér þætti dálítið svekkjandi að vera alltaf í 10. sæti á forgangslistanum, það er nú öll dómharkan.
-Ég átti við tóninn í þér. Og augnaráðið reyndar líka, þú ættir kannski að beina því austur á bóginn og athuga hvort Kárahnjúkastífla brestur ekki undan því.
-Þakka komplímentið en fyrst Friðrik Sófi er ekki ennþá kominn með kýlapest þá efast ég um að ég drífi yfir fjöll.
-Æ, kaktusblómið mitt. Þú ættir í alvöru að gefa því séns að hann hafi ekki séð þetta fyrir. Honum líður áreiðanlega ekkert vel núna því hvort sem þú trúir því eða ekki þá er þungbærara að særa þig en flesta aðra.
-Ef þú mátt vera að því að bíða skal ég klappa fyrir þessu óvenjulega þrekvirki hans um leið og ég er búin að laga kaffi. Alveg er það merkilegt hvað fólk virðist vera tilbúið til að leggja á sig miklar raunir til að þurfa ekki að standa við sín eigin plön.
-Get ég gert eitthvað fyrir þig?
-Áreiðanlega. Þú gætir t.d. útvegað mér nöfn og símanúmer hjá nokkrum tvítugum taðskegglingum sem eru ekki á leið á Þjóðhátíð og væru til í að veita mér líknardrátt.
-Nokkrum? Ertu að hugsa um að láta þá taka númer?
-Nei, ég held að ég réði nú ekkert við það en þeir hafa neitunarvald blessaðir drengirnir svo mér finnst nú öruggara að hafa almennilegan lista.
-Hvað með teiknistrákinn?
-Hann er sjálfur á kerlingarblús og svo er hann ekki tvítugur taðskegglingur.
-Muntu hlusta á mig ef ég mótmæli því harðlega að það sé skynsamlegt hjá þér að bjóða einhverjum fermingardreng uppí til þín?
-Nei elskan. En ef þú hlekkjar þig við rúmið mitt eru allar líkur á að ég hugsi mig tvisvar um.
-Það er líklega rétt sem þú sagðir um daginn. Það þarf kannski svolítið hugrekki til að elska þig.