Lygar

-Jæja, og hvernig leist þér á?
-Geðugur maður, það vantar ekki.
-En hvað?
-Ég fékk smá verk í pólitíkina af því að hlusta á hann og svo sagði hann Ásdísi að ég væri algjör dúlla.
-Kallaði hann þig dúllu! Í alvöru! Og hvar grófstu líkið?

-Það er kannski ekki frágangssök en hann álítur fulla þörf á stríði gegn hryðjuverkum og mér finnst nóg þráttað um póltík á mínu heimili nú þegar.
-Kannski geturðu leynt sambandinu þar til Haukur er fluttur að heiman.
-Og hvaðan heldur þú að drengirnir hafi þennan byltingarþorsta?

-Ég veit! Þú segir að maður þurfi ekki endilega að sofa hjá öllum sem maður giftist. Hver segir að maður þurfi endilega að tala við alla sem maður giftist? Þú getur sofið hjá honum og talað við mig.
-Kannski vill hann ekkert sofa hjá konu sem vill ekki tala við hann.
-Skrambinn. Þá myndirðu neyðast til að sofa hjá mér líka.
-Þú ert fallegur strákur, vissirðu það?
-Það er lygi sem ég get lifað við.
-Þú lifir við mun stærri lygar nú þegar ljósið mitt.
-Þú ert stóra lygin í lífi mínu Eva.
-Og þú ert eitt af því fáa í mínu lífi sem á nokkuð skylt við sannleika.