Hvað má hann kosta?

Líf mitt er þægilegt.

Að vísu álíka spennandi og fasteignasjónvarpið en ef mig vantar sögur til að segja barnabörnunum get ég bara logið einhverju að þeim.

Þegar líf manns er ömurlegt finnst manni að allar breytingar hljóti að vera skárri en kyrrstaðan. Þegar allt gengur vel, hef ég áhyggjur af því að allar breytingar, sama hve heitt ég þrái þær, muni raska jafnvæginu.

Ekkin er á hreinu.
-Ekki drykkjumaður.
-Ekki með fjármálaóreiðu á bakinu.
-Ekki með óuppgerð ástarsambönd.
-Ekki barnlaus.
-Ekki með illa uppalda frekjugrísi í eftirdragi.
-Ekki sóði.
-Ekki haldinn fórnarlambsheilkenninu.
-Ekki með menningarbakgrunn ólíkan mínum.
-Ekki haldinn tóbaksfíkn, offitu eða öðrum fátæktarsjúkdómum.
-Ekki með gæludýr.
-Ekki haldinn íþróttaþráhyggju.
-Ekki heimskur.

Ég gæti haldið endalaust áfram.

Ég er með verðbólgu í málamiðluninni. Gæti kannski sætt mig við gullfisk en ekki mikið meira en það. Mig langar í ástina en er ekki til í að skipta yfir í sápulöðrandi dramsýkisþáttaröð.

Það sem greinir manninn frá öðrum dýrum er tilhneiging hans til að vera aldrei sáttur við aðstæður sínar til lengdar. Ég er hjartanlega þakklát fyrir að hafa hvílíkt lúxusvandamál til að velta mér upp úr.