Sendinefnd AGS (les. fjárhaldsmenn ríkissjóðs) koma í dag til að fylgjast með því að ráðamenn okkar hafi rænu á að vinna vinnuna sína og segja þeim hvernig þeir eigi að stjórna landinu. Það er út af fyrir sig ágætt að þeir fá aðstoð við það en þar sem ‘ráðgjöf’ AGS til flestra þjóða sem hafa fengið neyðarlán, hefur falið í sér þvingun um að einkavæða ríkisfyrirtæki, koma á einokun bandarískra stórfyrirtækja og selja auðlindir (og þannig kippt grunninum undan sjálfstæði þessara ríkja) eru ekki allir jafn hrifnir af því að fá þessa ráðgjafa yfir okkur.
Til þess að standa undir greiðslum þarf að skera verulega mikið niður í opinberri þjónustu og sumir hafa áhyggjur af því að sá niðurskurður bitni illa á heilbrigðis-, félags-, og menntakerfinu. Hvernig ætla menn að fara að þessu? Verður geðdeild Landspítalans lokað? Verða húsaleigubætur afnumdar? Verður Þjóðleikhúsið lagt niður? Verða framlög til rannsóknastarfs Háskólans afnumin? Verður Háskólinn lagður niður? Krabbameinsmeðferð afnumin? Tryggingastofnun send í sumarfrí?
Ég hef haft verulegar áhyggjur af þessu, böggað Steingrím með tölvupósti og krafist svara um það hvar hnífum verði beitt en ekki fengið svör. Mér varð því óskaplega mikið létt þegar ég fann svarið við þessu á netsíðunni island.is:
‘Í raun er gert ráð fyrir að láta sjálfvirka sveiflujöfnun virka að fullu á næsta ári og við útreikning á bata samkvæmt langtímaaðhaldi í ríkisfjármálum er reiknað út frá hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði sem gefur því meiri slaka sem kreppan er dýpri.’
Þá vitum við það. Loksins getur maður sofið rólega.
Aðgerð kl 12. Hittumst við Seðlabankann.
Og í kvöld, kl 20, standa anarkistar fyrir kynningu á AGS á kaffi Hljómalind. Auðunn Kristbjörnsson mun segja frá framgöngu AGS í þróunarlöndunum og afleiðingum af viðskiptum við hann og svo verða opnar umræður. Frjáls framlög til að greiða fyrir afnot af húsnæðinu og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
——————————————————————–
Eva, þakka þér fyrir að birta þessar greinargóðu og gleðilegu upplýsingar:
‘Í raun er gert ráð fyrir að láta sjálfvirka sveiflujöfnun virka að fullu á næsta ári og við útreikning á bata samkvæmt langtímaaðhaldi í ríkisfjármálum er reiknað út frá hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði sem gefur því meiri slaka sem kreppan er dýpri.’
– mér er líka strax orðið rórra…
Kolbrún Hilmars, 26.2.2009 kl. 12:42
— — —
Ef maður reynir að skilja þennan óskapnað þá þýðir þetta að (sjálfvirk sveiflujöfnun) að útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og slíkt hækkar verulega í samdrætti/kreppu. Hinn óskapnaðurinn (hagsveiflueiðréttur frumjöfnuður) þýðir ef ég skil það rétt að tekjuauking eða -minnkun ríkissjóð á ákveðnum tíma eða tímabili. Ergó: útgjöld ríkisins til atvinnuleysisbóta, vaxtabóta og barnabóta til dæmis aukast á næstu árum á sama tíma og tekur ríkisins minnka all verulega vegna kreppunar.
Svo til að mæta því þarf að hækka skatta og skera niður í rekstri til langs tíma, 10-15 ár eða svo því á sama tíma þá aukast vaxtagreiðslur ríkisins vegna erlendra lána um milljarðatugi á nokkuraára tímabili og þar við bætist afborganir. Við erum því að horfa upp á niðurskurð til velferðamála um tugi og jafnvel hundruði milljarða. Svo einfalt er það Eva. Svo getum við beitt ímyndunaraflinu til að spá í hvað þetta þýðir fyrir fólkið í landinu.
Arinbjörn Kúld, 26.2.2009 kl. 13:21