Bréf sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar var afhent í morgun

TIL RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS

-Nokkrar spurningar frá skrílnum sem á að greiða neyðarlánið frá AlþjóðagjaldeyrissjóðnumKæru ráðherrarFyrri ríkisstjórn ákvað, án samráðs við okkur sem eigum að borga brúsann að taka lán hjá þeirri illræmdu stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Núverandi ríkisstjórn hefur hvorki afþakkað lánið né borið þessa ákvörðun undir okkur –sem eigum að borga.

Skv. vefsíðunni www.island.is setur AGS ekki skilyrði fyrir láninu, aðeins áætlun um áfanga sem flestir fela í sér venjuleg nefndastörf og skrifstofuvinnu. Því trúir enginn heilvita maður að gjaldþrota þjóð fái lán upp á hundruð milljarða, án þess að leggja fram neinar tryggingar eða veð fyrir endurgreiðslu. Því spyrjum við:

-Hver eru skilyrðin?
-Hvernig eigum við að endurgreiða lánið?
-Hvað gerist ef við getum ekki borgað?

Aðrar þjóðir sem hafa fengið neyðarlán hjá AGS hafa þurft að uppfylla ströng skilyrði, að meðaltali 114 talsins. Oft fela þau í sér að ríkisfyrirtæki verði einkavædd og auðlindir seldar. Með þessu hefur grundvellinum fyrir sjálfstæði verið kippt undan mörgum þjóðum. Því spyrjum við:

-Hvaða ástæðu höfum við til að vænta þess að okkur verði hlíft?
-Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja að við missum ekki ráðstöfunarrétt yfir auðlindum Íslands?

Það er ljóst að til að endurgreiða lánið þarf að skera niður opinbera þjónustu . Margir óttast að velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfið verði illa úti. Á vefsíðunni www.island.is er þessum áhyggjum svarað á þennan hátt:

‘Í raun er gert ráð fyrir að láta sjálfvirka sveiflujöfnun virka að fullu á næsta ári og við útreikning á bata samkvæmt langtímaaðhaldi í ríkisfjármálum er reiknað út frá hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði sem gefur því meiri slaka sem kreppan er dýpri.’

Og enn spyrjum við:

-Ætlast stjórnvöld til þess að almenningur skilji þetta?
-Hvað í fjandanum þýðir þetta eiginlega?
-Hvað á að skera niður og í hvaða röð?

VIÐ VILJUM SVÖR Á MANNAMÁLI –STRAX!

One thought on “Bréf sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar var afhent í morgun

 1. ——————————————————
   

  Frábært framtak. Ég veit þú leyfir okkur að fylgjast með.

  Posted by: Rósa | 28.02.2009 | 5:46:53
  ——————————————————

  „illræmda stofnun“, „hvað í fjandanum“ „ætlast stjórnvöld til að almenningur skilji þetta“…. o.s.frv…

  það vantar ekki hlutleysið og fagmennskuna í þetta bréf sé ég.

  Það er ekki hægt að skrifa texta um lán og flókna fjármálagerninga þannig að allir skilji. Það skilja ekki allir Íslendingar skattalögin, reglugerðir um heilbrigðisstofnanir, jarðrannsóknir og fleira. Það er ekki hægt að setja allt fram á barnamáli svo allir í landinu skilji. Við sem þegnar treystum því að stjórnvöld (hver svo sem þau verða á morgun) og fagmenn á þeim sviðum sem um ræðir (háskólaprófessorar og fagaðilar) starfi af heiðarleika og gefi almenningi rétta mynd af áliti sínu á stöðunni .

  Það er erfitt að taka svona bréf alvarlega, ef ég fengi svona ,,skemmtilega“ orðað bréf til mín þá myndi ég brosa kurteysislega og segja jahá. Henda því svo.

  Þetta hljómar eins og börn í 4. bekk grunnskóla að væla um lengri frímínútur. Því miður.

  kv,

  Ólafur S (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 14:48

  ——————————————————

  Það er víst hægt að tala mannamál!

  Sóley Björk Stefánsdóttir, 26.2.2009 kl. 15:31

  ——————————————————

  Fínt bréf.

  Vefsíðan island.is er sérlega sett upp og kynnt (illa reyndar) sem upplýsingaveita til almennings. Sveiflujöfnunarmálsgreinin er augljóslega sett fram til að veita ekki upplýsingar, heldur fela eitthvað í holtaþoku kanselístíls. Það geta jafnvel börn í 4. bekk grunnskóla séð.

  Kjarnorð krafa um svör við konkret spurningum og að hætt verði að tala niður til fólks í stíl læknanna í Ímyndunarveiki Moliéres er vel þegin.

  Toggi (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 16:35

  ——————————————————

  Ólafur áttu við að það sé boðlegt að svara spurningum um niðurskurð hjá hinu opinbera með þessari dulkóðuðu vitleysu?

  Þú segir að ‘við sem þegnar’ (átt sennilega við ‘borgarar’ nema upptaka konungveldis hafi farið fram hjá mér) treystum á heiðarleika stjórnvalda og þeirra hjálparkokka. Ekki veit ég hvaða ‘við’ það eru, en ég er svo sannarlega ekki í þeirra hópi. Það er fullt af fólki á Íslandi sem telur sig ekki hafa neina sérstaka ástæðu til að treysta stjórnvöldum og það fólk á rétt á upplýsingum -á mannamáli.

  Eva Hauksdóttir, 26.2.2009 kl. 16:36

  ——————————————————

  Þegnar er skemmtilegt orð en já að sjálfsögðu á ég við okkur sem búum í þessu landi.

  Þegar ‘þegnar’ treysta ekki álitsgjöfum stjórnvalda er tilvalið að grafa upp hlutlausa aðila og biðja þá um að segja sína hlið á málinu.

  Sjálfvirk sveiflujöfnun þýðir að hafa fljótandi gengi á opnum markaði. Þá lækkar gengið þegar innflutningur er mikill og styrkist með auknum útflutningi. Þanig kemst (til lengri tíma) jafnvægi á inn/útflutning og gengi krónunnar.

  Willem H. Buiter hefur t.d. fylgst með hér á landi og benti um síðasta haust fyrir hrun bankanna að eina möguega lausnin í stöðu landsins væri að leita á náðar AGS.  Hann skrifar reglulega um Ísland á http://blogs.ft.com/maverecon/ ef þið viljið lesa óháð álit. Góð grein á síðu 2, en því miður er hún ekki á íslensku og ekki miðuð á hinn títtnefnda 4. bekk. En hún er á mannamáli.

  Svo eru sumir sem hreinlega eru alltaf á móti þeim sem ráða sama hve góð upplýsingagjöfin er, hverjir eru við völd og sama hvað er gert.  Það er til lítis að benda þeim á staðreyndir og frekari upplýsingar vegna þess að það fer inn um eitt og út um hitt.

  kv,

  Ólafur S (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 17:53

  ——————————————————

  Hvernig er það er framboðsfresturinn til alþigis liðinn?Ef svo er ekki mana ég þig til að fara í framboð og kannski kæmist þú að sem þingmaður jafnvel í stjórn og þá getur þú sjálf persónulega séð um að við þegnar þessa lands fáum allar upplýsingar beint og milliliðalaust um allt sem þarf að gera og helst að bera það undir okkur þegnana á mannamáli áður. Já Eva hauksdóttir ég skora á þig,farðu í framboð.

  birnas (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 18:18

  ——————————————————

  Birna: Nei, ég mun ekki fara í framboð vegna þess að flokkakerfið er ein af rótum vandans og því fráleitt að ég vilji taka þátt í því. Ég væri hinsvegar til í að taka þátt í stjórnlagaþingi.

  Eva Hauksdóttir, 26.2.2009 kl. 18:59

  ——————————————————

  Takk fyrir þessa útskýringu á sjálfvirkri sveiflujöfnun Ólafur. Ég sé nú reyndar ekki í hendi mér hvernig sjálfvirk sveflujöfnun á að draga úr líkunum á því að niðurskurður í opinbera kerfinu ríði okkur á slig. Þó kann að vera að hagsveifluleiðrétti frumjöfnuðurinn tryggi 4. bekkingum nógu góða kennslu til að geta lesið afrekaskrá stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sér að gagni í 5. bekk.

  Goðsögnin um þann sem er alltaf á móti þeim sem ráða kemur til af því, að almennilegt andófsfólk rís gegn óréttlæti og valdníðslu, hver svo sem er ábyrgur fyrir því, í stað þess að snúa blinda auganu að sínum flokki. Ég þekki engan sem er á móti öllum ákvörðunum stjórnvalda, hins vegar þekki ég marga sem eru ekkert frekar til í að Jóhanna og Steingrímur klúðri sjálfstæðinu en einhver annar.

  Eva Hauksdóttir, 26.2.2009 kl. 19:13

  ——————————————————

  Flottur „himbrimi“ hjá þér í Víðsjá nú áðan – á mannamáli 🙂

  Ásgeir Kristinn Lárusson, 26.2.2009 kl. 17:50

  ——————————————————

  Ég ætlast að sjálfsögðu til þess að þessu verði svarað á umræddri netsíðu, þar sem þetta kemur allri þjóðinni við.

  Eva Hauksdóttir, 26.2.2009 kl. 18:51

Lokað er á athugasemdir.