Tungumálið kemur upp um okkur. Hugsunarhátt okkar.
Þegar allt kemur til alls er ekki svo mikill munur á ‘I like you’, ‘I am like you’ og ‘I feel like you’. Fólk laðast víst mest að þeim sem líkjast því, hvort sem um er að ræða vináttu- eða ástarsambönd. Samkvæmt rannsóknum eru m.a.s. meiri líkur á að fólk verði ástfangið ef það líkist hvort öðru í útliti.
Enginn þeirra manna sem ég hef elskað hefur líkst mér í útliti. Eða ég get allavega ekki séð það. Og ekki í skapgerð heldur. Né í tjáningu. Samt líkaði mér við þá, hlýtur að vera. Eða hvað? Í dag líkar mér ekki við neinn þeirra, nema þann sem ég er ennþá ástfangin af. Mér líkar heldur ekki við annað fólk sem mér þótti afar vænt um áður en kom til sambandsslita.
Það er erfitt að elska einhvern sem maður er ekki í neinu sambandi við. Það er erfitt að halda sambandi við fólk sem gerir líf manns erfiðara og ég er ekkert sérstaklega fyrir að hafa lífið erfitt. Ég hef alltaf skýrt það að mér hætti að líka við fólk, fyrir sjálfri mér með skilvirkri aftengingu. Það er auðvelt að hætta að elska þann sem manni líkar ekki við og árið 2000 datt ég niður á einfalt sálfræðilegt trix til að hætta að líka vel við fólk sem ég vil ekki elska og hef notað það með góðum árangri síðan. Svo góðum að mér finnst minn eigin tilfinningakuldi hálf óhugnanlegur. Það er ekki það að mér sé illa við neinn, ég er bara svo gjörsamlega dofin gagnvart fólki sem ég elskaði mér til verkja að stundum velti ég því fyrir mér hvort ég hafi fengið einhvern óþekktan vírus í heilann.
Ég er að velta því fyrir mér núna hvort það sé bara trixið. Hættir mér kannski að líka við fólk þegar ég átta mig á því að það er í rauninni ekkert líkt mér?
——————————————
Verðugar vangaveltur. það er einmitt sérkennileg reynsla að elska manneskju sem kemur illa fram við þig, og þér getur þess vegna vart líkað við, því það er svo fjári óskynsamlegt að láta bjóða sér skítaframkomu trekk í trekk.
á endanum er það hegðunin, það sem manneskjan segir við þig og gerir, sem vegur þyngst á metunum. höfuðið sigrar hjartað.
Posted by: baun | 15.04.2008 | 19:26:55