Játning

Einkennilegt hvað það kemur mér í mikið uppnám að rekast á stafsetningarvillur á blogginu mínu. Þetta eru einhver ómerkilegustu mistök sem hægt er að gera sig sekan um og gerist svosem ekki oft en ég verð trítilóð út í sjálfa mig, jafnvel reiðari en þegar ég fæ stöðumælasekt.

Nú er hver að verða síðastur að nota þennan ágæta galdradag til að tilbiðja Mammon og mun ég nú draga fram hrafnskló mína og töfrakvörn og snúa mér að því að galdra til mín helvítis helling af peningum, varanlega lausn á bílastaðavanda fyrirtækisins, týnda soninn heim frá Tékklandi og fundna soninn út úr skelinni. Hann kyssti mig að fyrra bragði í kvöld. Lífið er fagurt.

Ég trúi á líf fyrir dauðann, heilög og almenn mannréttindi, umhverfisstefnu, frið milli þjóða, súkkulaðiköku og þokkalega stafsetningu.
Að eilífu,
Mammon.