Föstudagurinn langi

Ég gat voða lítið hlaupið í morgun. Getur verið að æfingar gangi betur ef maður hefur borðað áður? Mér finnst ótrúlegt að morgunmatur skipti miklu máli upp á úthaldið því það sem háir mér er ekki vöðvaþreyta hefur vanrækt hjarta og lungu. Samt sem áður er það eina breytan sem ég finn sem gæti skýrt þetta.

Ég tók þátt í hóplögbroti  í frábæru veðri á Austurvelli og kleinurnar voru beinlínis himneskar. Ég get hugsað mér skemmtilegri leiki en bingó en þetta var allavega örugglega skemmtilegra en að láta krossfesta sig.

Kaffihús voru opin þrátt fyrir friðhelgi dagsins. Ég fékk verstu frönsku pönnuköku sem ég á ævinni hef bragðað. Hún var svo vond að ég át ekki nema þrjá bita af henni og hef sjaldan séð meira eftir 450 krónum sem ég sjálfviljug og af eigin frumkvæði hef látið af hendi. Síðast þegar ég kom á þetta sama kaffihús, fékk ég verstu vöfflu sem ég hef borðað en hún var þó ekki ógeðslegri en svo að ég át hana samt. Kannski var ég svöng. Af þessari sögu má læra tvennt;
-kokkur sem kann ekki að baka vöfflur, kann sennilega ekki að baka pönnukökur heldur og
-betri eru tvær litlar kleinur í boði Vantrúar en ein stór pönnukaka á okurprís.

One thought on “Föstudagurinn langi

  1. —————————

    Það er mjög persónubundið hvort æfingar ganga betur á tóman, hálffullan eða fullan (sjaldgæft en þó þekki ég mann sem gúffaði í sig máltíðum fyrir karateæfingar án þess að verða misdægurt) maga. Mér finnst gott að hlaupa á morgnana á fastandi maga en gæti ómögulega farið að íþróttast eitthvað seinnipartinn án þess að hafa borðað sirka tveim tímum áður. Ég held maður verði bara að finna sitt mynstur út og taka mark á því.

    —————————

    Sá þig í bingóinu í dag! 😉

    Posted by: Unnur María | 21.03.2008 | 18:58:06

    —    —   —

    Hehe, var þetta á Kaffi París? Ég fékk allavega skrælþurra pönnuköku þar um daginn, greinilega ekki nýbakaða…

    Posted by: hildigunnur | 22.03.2008 | 9:03:37

    —    —   —

    bingó!

    Posted by: Eva | 22.03.2008 | 11:34:28

    —    —   —

    Kvartaðir þú ekki?

    Posted by: Þorkell | 24.03.2008 | 2:09:28

    —    —   —

    Jújú, við létum að sjálfsögðu vita af því að pönnukökurnar væru vondar og þjónninn tók því fálega en sagðist myndu koma því til skila. Það var svo brjálað að gera að við nenntum ekki að standa í því að reyna að fá eitthvað annað í staðinn.

    Posted by: Eva | 24.03.2008 | 9:03:42

    —    —   —

    Ég var eitt sinn staddur í Osló og þar á Karl Johanngata var maður að kynna félag trúleysingja í Noregi (afskaplega hugaður maður greinilega) en hann sagði mér að frumskilyrði þess að vera í félagi trúleysingja væri að hafa ekki trú. Þá datt mér í hug er ekki frumskilyrði þess að vera í trúfélagi það að hafa trú ? Er þá hægt að stofna söfnuð um að hafa ekki trú ?

    Posted by: Guðjón Viðar | 24.03.2008 | 9:05:09

    —    —   —

    Kemur þessi ruglhugmynd nú upp eina ferðina enn.

    Það er auðvitað ekki hægt að stofna söfnuð um trúleysi enda er Vantrú ekki trúfélag. Það er hinsvegar vel hægt að stofna félagsskap áhugamanna um trúleysi eða félag sem beitir sér gegn trúarrugli of hindurvitnum, rétt eins og félagsskap sem berst gegn vímuefnaneyslu, kynþáttfordómum eða hvaða ófögnuði sem er öðrum. Ég hefði haldið að frumskilyrði þess að tilheyra félagi gegn kynþáttafordómum væri yfirlýstur vilji til að láta ekki stjórnast af kynþáttafordómum sjálfur.

    Posted by: Eva | 24.03.2008 | 9:22:30

    —    —   —

    Hvaða skoðun hefur Vantrú á Nornabúðinni og þeim lukku- og verndargripum, jurtum, smyrslum, spilum og rúnum sem þar fást?

    Posted by: Davíð Þór | 25.03.2008 | 15:33:41

    —    —   —

    Þú ættir líklega frekar að spyrja meðlimi Vantrúar að því.

    Ég get þó sagt þér að mínir dyggustu viðskiptavinir eru annarsvegar fólk sem hefur gaman af þessum hluta menningararfsins án þess að taka hann sérlega alvarlega og hinsvegar vantrúaðir húmanistar sem álíta líkt og ég sjálf að galdrastafir séu ekkert annað en táknmyndir af óskum, að jurtate séu ágæt til heilubótar en komi ekki í stað nútíma lyfja og að galdur feli í sér sálfræðilegar aðferðir til að takast á við tilveruna óháð goðmögum, andaheimi eða annarri yfirnáttúru. Mjög „andlegt“ fólk gefst fljótt upp á því að leita að guðdómnum í Nornabúðinni enda er hann ekki hér.

    Vantrú hefur deilt á blekkingarstarfsemi, gervivísindi og lýðskrum í kringum occult geirann en ekki á það að nota heillagripi eða jurtir í sjálfu sér. Ég hef lítið rætt þessi mál við Vantúarmenn en t.d. afstaða mín til töfragripa er í fullu samræmi við það hvernig einn virkasti penni Vantrúar útskýrir skoðun sína hér:http://www.vantru.is/2007/07/13/08.00/ . Við Alexander segjum einmitt börnum sem koma hingað inn að skeljar, steinar og bein sem þau finna sjálf séu bestu heillagripirnir.

    Posted by: Eva | 25.03.2008 | 16:11:12

Lokað er á athugasemdir.