Þegar Byltingin mætti til afplánunar inn í Hverfisstein, stundvíslega kl. 13 þann 6. ágúst, munaði litlu að hann þyrfti að brjóta sér leið inn. Engin kannaðist við að eiga von á honum og hann var m.a.s. beðinn að leggja fram boðun í afplánun til sönnunnar. Það vildi svo vel til að hann var með boðunina með sér, svo hann losnaði til að fremja glæp á staðnum til að fá inngöngu.
Þar sem ekkert pláss var fyrir hann á Skólavörðustígnum var hann vistaður í fangageymslu í Hverfissteininum fyrstu 6 dagana. Sú er ekki hentug til refsivistar og aðallega notuð sem bráðabirgðaúrræði fyrir gæsluvarðhaldsfanga. Haukur var náttúrulega ekki dæmdur í einanrun frekar en Miriam en þar sem allir aðrir á staðnum voru í einangrun hafði hann engan félagsskap þessa daga sem hann var þar. Á móti kom að hann var ekki talinn meiri ógn við þjóðaröryggið en svo að honum var hleypt úr eftirlitslaust daglega. Það kemur til af því að lögum samkvæmt eiga fangar rétt á því að fara út klukkutíma á dag en enginn garður eða aðrar aðstæður til þess eru á Hverfisgötunni.
Þegar Miriam var í Hverfissteinunum voru útivistarmálin einfaldlega leyst með því að brjóta á henni, hún fór ekkert út þá daga sem hún var þar. Miriam fékk ekkert samneyti að hafa við aðra fanga þessa 8 daga sem hún sat inni. Eftir að hún var flutt á Skólavörðustíginn var hún eina konan í karlafangelsi og kynin fá ekki að hafa samgang. Hún segir þó að fangaverðir hafi komið afskaplega vel fram við sig og hún fékk lengri símatíma en lög kveða á um. Sennilega er hægt að skrifa flest atvik þar sem brotið hefur verið á mótmælendum (svo sem óréttmætar handtökur og það þegar vegabréf eru tekin af útlendingum í trássi við alþjóðalög) á „klúður í kerfinu“ fremur en framtakssemi einstaka lögreglumanns eða fangavarðar. Það er hinsvegar ekkert einfalt mál að stefna „kerfinu“.