Rekinn!

Haukur er mikil félagsvera og þótt hann hafi strax tekið þá afstöðu að líta á dóminn sem launað frí til menntunar og ritstarfa í þágu Saving Iceland, og þótt hann hafi notið þeirra forréttinda að fá að valsa eftirlitslaust um borgina var hann samt feginn að komast á Skólavörðustíginn. En Adam var ekki lengi í Paradís. Þann 13. ágúst var honum hent út. Það þurfti nefnilega að rýma plássið hans, ekki fyrir morðingja eða ofbeldismanni, heldur fyrir öðrum aktívista. Steinunn fór semsagt inn þennan sama dag. Mér leikur forvitni á því hvort hun hefur líka þurft að krefjast þess að fá inngöngu.

Hauki var sagt að hann yrði kallaður til að ljúka afplánun einhverntíma seinna þegar fangelsisyfirvöldum hentaði. Mér finnst með ólíkindum að það geti verið löglegt. Hann var búinn að fá sig lausan úr vinnu þessa 18 daga og varla hægt að bjóða vinnuveitanda upp á það, eftir að hann er búinn að lofa öðrum yfirvinnu í 18 daga, að svo þurfi hann að gefa frí aftur af sömu ástæðu „einhverntíma seinna“. Mitt fólk hittir lögfræðing í dag og vonandi skýrist þá réttarstaða þeirra.

 

One thought on “Rekinn!

  1. ——————————————

    Smá misskilningur hjá mér, hann fór aldrei á Skólavörðustíginn, heldur var honum skutlað út strax þann 11. ág. Þetta virðast vera lögleg vinnubrögð því næstum allar lagagreinar um framkvæmd refsivistar innihalda klausuna „ef sérstakar aðstæður krefjast þess“ og vitanlega er alltaf hægt að halda því fram að aðstæður séu sérstakar.

    Posted by: Eva | 16.08.2007 | 12:57:46

    ——————————————

    Þetta er út í hött. Væri þá hægt að neyða hann til að taka út einn dag í viku? Og það hlýtur að vera hægt að kanna hvort aðstæður hafi verið sérstakar. Hvers vegna var t.d. NAUÐSYNLEGT að taka einhvern annan inn? Þeir hljóta að þurfa að útskýra það!

    Posted by: Þorkell | 17.08.2007 | 6:46:12

Lokað er á athugasemdir.