Þessar stórkostlegu forvarnartillögur komu fram í tengslum við druslugönguna og nú skýtur þeim aftur upp. Varla er neinn svo vitlaus að halda að þessi snepill hafi raunverulegt forvarnagildi svo ég bara auglýsi eftir tilganginum með þessum skrifum.
Það gildir um flesta ef ekki alla flokka andfélagslegrar hegðunar að til þess að uppræta hana og fyrirbyggja þarf að nálgast gerendur og þá sem eru í áhættuhópi af meðúð og virðingu. Já ég sagði það, meðúð og virðingu. Það er nefnilega hægt að sýna fólki skilning þótt maður samþykki ekki tiltekna þætti í fari þess og leggi ekki blessun sína yfir skaðlega hegðun.
Meðferð afbrotamanna byggist fyrst og fremst á því að fá þá til að horfast í augu við sjálfa sig og skilja bæði afleiðingar gjörða sinna og hvatann á bak við skaðlega hegðun. Það er ekki gert með því að hæðast að afbrotamönnum eða gefa í skyn að allir karlar séu líklegir til að fremja kynferðisglæpi við hvaða aðstæður sem er. Þetta vita allir sem hafa lágmarks skilning á mannlegu eðli, svo ég spyr enn og aftur hver er tilgangurinn með því að birta þessa upptalningu? Því hann er augljóslega ekki sá að draga úr tíðni og alvarleik kynferðisofbeldis.
Uppfært: Tengillinn á þessi frábæru forvarnarráð er ekki lengur virkur en sömu eða samskonar snilld er að finna hér.