Hökunornin

Einn daginn þegar ég leit í spegilinn að morgni, tók ég eftir því að hakan á mér hafði lengst. Í fyrstu var ég ekki viss, hélt að þetta væri kannski vitleysa í mér en þegar ég kom í vinnuna hafði samstarfsstúlka orð á því eitthvað væri einkennilegt við andlitið á mér. Ég hef alltaf verið talin snotur og þetta olli mér satt að segja áhyggjum.

Á næstu dögum og vikum óx hakan á mér mjög hratt og ég var hreint ekki ánægð með útlitið á mér. Ég fór til læknis og hann sendi mig til beinasérfræðings. Sá hafði aldrei séð annað eins og vissi ekkert hvernig staðið gæti á þessu. Þar sem ekkert lát varð á hinum öra vexti, taldi hann ekkert vit í að fjarlægja hökuna með aðgerð. Hann lét hins vegar taka af mér röntgenmyndir sem voru sendar til háskóla í þremur heimsálfum, í von um að einhver gæti skýrt fyrirbærið. Um það leyti sem okkur bárust svör um að enginn hefði séð neitt þessu líkt, auk langra greinargerða um hugsanlegan skyldleika við aðra beinasjúkdóma, var hakan farin að ná mér niður undir bringspjalir.

Líf mitt varð ömurlegt. Ég missti vinnuna á skrifstofunni af því að „andlit fyrirtækisins“ má helst ekki vera svo afskræmt að kúnninn hlaupi æpandi út. Börn grétu þegar þau sáu mig á götu og kölluðu mig hökunorn. Ég fékk örorkubætur því þótt í upphafi hefði þetta ekki háð mér, nema bara útlitslega, átti ég orðið í erfiðleikum með að reima skóna mína þarsem hakan rakst alltaf í hnén þegar ég beygði mig.

Enn óx hakan. Mér leiddist að sitja alltaf ein heima og allir sem ég þekkti voru í fullri vinnu og komu aldrei í heimsókn. Auk þess fann ég að þeim líkaði ekki lengur við mig. Ég gerði tilraunir til að fara að út að skemmta mér en þegar ég reyndi að dansa, rak ég hökuna alltaf í klofið á einhverjum í hvert sinn sem ég hreyfði höfuðið og var á endanum hent út fyrir kynferðislega áreitni. Að lokum varð ég svo niðurdregin að ég keypti mér farmiða til Ævintýralands í von um að kynnast öðrum verum, jafn undarlegum útlits. Það er nefnilega mun bærilegra að vera skrýtinn í Ævintýralandi en á Íslandi.

Í Ævintýralandi bjuggu allskyns verur. Froskaprinsessur í álögum, einhyrningar, kýklópar, múmínálfar, marbendlar, tröll, dvergar og m.a.s. hökunornir; fólk eins og ég. Í þessu landi leið mér vel. Hér var ég meðal jafningja. Ég fékk vinnu í minjagripabúð og íslenskir túristar sýndu mér bæði athygli og fulla virðingu líka, því í Ævintýralandi er beinlínis gert ráð fyrir því að íbúarnir séu undarlegir útlits.

Svo gerðist það hræðilega. Þegar hakan á mér var farin að ná niður á ökkla, fór hún smámsaman að styttast aftur. Því styttri sem hún varð, því óvinsælli varð ég meðal hinna hökunornanna og því minni athygli fékk ég frá ferðamönnum sem komu inn í búðina. Að lokum varð hakan á mér eins og hún hafði upphaflega verið.

Ég hélt vinnunni í búðinni en mér finnst ekkert gaman að vinna þar lengur. Túristarnir koma fram við mig eins og hvern annan þjón og vinkonur mínar líta ekki við mér lengur. Auðvitað gæti ég farið aftur heim ef ég ætti farmiða. Vandinn er bara sá að ég reiknaði aldrei með því að vöxturinn gengi til baka. Þessvegna keypti aðeins farmiða aðra leiðina.