Eitlaleit

Í fríinu mínu rifjaði Hulla systir mín upp fyrir mér læknisskoðanirnar í litlum skóla úti á landi, þar sem við ólumst upp um tíma. Líklega hefur læknir komið á staðinn til að bólusetja hluta af hópnum en annars var læknisskoðunin í höndum prestins og skólastjórans sem var kona prestsins. Hún gegndi, ef ég man rétt, hlutverki ritara við þessa viðmiklu rannsókn á allt að 50 börnum. Auk þeirra var sonur þeirra hjóna 5-7 ára gamall, ávalt viðstaddur læknisskoðunina. Hlutverk hans var þó óljóst.

„Læknis“skoðunin var að mestu leyti ósköp hefðbundin úttekt sem þarf í sjálfu sér enga sérfræðiþekkingu til að framkvæma. Sjónpróf, hæð og þyngd mæld, berklaplástrar, ég man líka eftir lúsaleit en er ekki viss um hvort það var við sama tækifæri.

Eitt var þó við þessa læknisskoðun sem ég man ekki eftir úr neinum öðrum skóla. „Læknis“skoðuninni lauk nefnilega á því að presturinn kíkti sem snöggvast ofan í nærbuxurnar okkar. Krakkarnir töluðu um að hann væri að „leita að eitlum“ þegar ég lýsti furðu minni eftir að hafa orðið fyrir þessu í fyrsta sinn. Ég man ekki eftir neinu öðru sem gæti talist óviðurkvæmilegt í fari þessa ágæta manns og auk þess var bæði konan hans og barnið á viðstödd svo mér finnst eins og það hljóti að vera einhver skýring á þessu önnur en dónakarlaskapur. Ég held samt að eitlar nálægt kynfærum finnist eins og aðrir eitlar aðallega með þreifingu og séu næsta sjaldgæfir hjá 7-12 ára börnum. Kannast lesendur við eitlaleit af þessu tagi?