Eitlaleit

Í fríinu mínu rifjaði Hulla systir mín upp fyrir mér læknisskoðanirnar í litlum skóla úti á landi, þar sem við ólumst upp um tíma. Líklega hefur læknir komið á staðinn til að bólusetja hluta af hópnum en annars var læknisskoðunin í höndum prestins og skólastjórans sem var kona prestsins. Hún gegndi, ef ég man rétt, hlutverki ritara við þessa viðmiklu rannsókn á allt að 50 börnum. Auk þeirra var sonur þeirra hjóna 5-7 ára gamall, ávalt viðstaddur læknisskoðunina. Hlutverk hans var þó óljóst.

„Læknis“skoðunin var að mestu leyti ósköp hefðbundin úttekt sem þarf í sjálfu sér enga sérfræðiþekkingu til að framkvæma. Sjónpróf, hæð og þyngd mæld, berklaplástrar, ég man líka eftir lúsaleit en er ekki viss um hvort það var við sama tækifæri.

Eitt var þó við þessa læknisskoðun sem ég man ekki eftir úr neinum öðrum skóla. „Læknis“skoðuninni lauk nefnilega á því að presturinn kíkti sem snöggvast ofan í nærbuxurnar okkar. Krakkarnir töluðu um að hann væri að „leita að eitlum“ þegar ég lýsti furðu minni eftir að hafa orðið fyrir þessu í fyrsta sinn. Ég man ekki eftir neinu öðru sem gæti talist óviðurkvæmilegt í fari þessa ágæta manns og auk þess var bæði konan hans og barnið á viðstödd svo mér finnst eins og það hljóti að vera einhver skýring á þessu önnur en dónakarlaskapur. Ég held samt að eitlar nálægt kynfærum finnist eins og aðrir eitlar aðallega með þreifingu og séu næsta sjaldgæfir hjá 7-12 ára börnum. Kannast lesendur við eitlaleit af þessu tagi?

One thought on “Eitlaleit

 1. ———————–

  Ég man eftir svona atviki úr barnaskóla-læknisskoðun. Ég held að tilgangurinn hafi verið að fylgjast með kynþroskanum. Það getur verið afar óheppilegt að börn verði kynþroska of senmma af ýmsum ástæðum en fyrst og fremst vegna þess að þau hætta þá að vaxa.

  Posted by: sliban | 17.08.2007 | 10:01:35

  ————————

  Ég held að þeir hafi mikið frekar verið að athuga hvort eistun hafi ekki sigið niður, en slíkt getur haft slæmar afleiðingar.

  Posted by: Elías | 17.08.2007 | 10:40:49

  ———————–

  tæpast hjá stelpunum, samt…

  Posted by: hildigunnur | 17.08.2007 | 10:46:44

  ——————————————————-

  já, ég man eftir þessu tékki, eftir að maður hafði háttað sig úr öllu nema naríum með hinum strákunum – það sló mann svolítið að hjúkrunarkonan fór alltíeinu að skoða á manni litla kallinn.

  kannski eitthvað sem hefði mátt útskýra fyrir okkur öllum. greinilega margir enn undrandi yfir svona atvikum.

  Posted by: Halli | 17.08.2007 | 11:12:22

  ——————————————————-

  Ég man vel eftir því að athugað var í mínum bekk hvort eistun hefðu skilað sér. Hjúkrunarkonan spurði vandræðalega hvort allt væri ekki örugglega komið niður og strauk svo snöggt um punginn. Flestir strákarnir voru dauðhræddir um að þeim færi að standa á þeirri stundu en auðvitað gerðist það ekki. Maður var allt of hræddur til þess.

  Ég minnist þess hins vegar ekki að kíkt hafi verið í nærjur stelpnanna.

  Posted by: Þorkell | 17.08.2007 | 11:49:16

  ——————————————————-

  Jú – þetta var gert hjá okkur á Höfn líka – það kvisaðist út í einni læknissk. að það væri verið að kíkja ofan í naríurnar… þótti öllum þetta mjög mjög óþægilegt en engin ástæða var gefin fyrir þessari gægjuþörf.

  Posted by: Siggadís | 17.08.2007 | 12:35:26

  ——————————————————-

  ég man að hann Grímur læknir gerði þetta í Garðabænum við okkur strákana það er að kíkja ofan í buxurnar, veit ekki með stelpurnar

  Posted by: Stefán | 17.08.2007 | 12:57:25

  ——————————————————-

  Nú er ég bara að hugsa upphátt en einn tilgangur læknisskoðana er af félagsmálayfirvaldalegum toga ef svo má orða það. S.s. að athuga hvort börnin séu óeðlilega sködduð eða skítug. Var kannski verið að ganga úr skugga um að krakkarnir væru í hreinum nærbuxum eða jafnvel að allir væru hættir að pissa í buxurnar?

  Posted by: Unnur María | 17.08.2007 | 14:56:15

  ——————————————————-

  Ég var í 6. bekk, löngu farin að hafa blæðingar og brjóstin á mér 2 númerum stærri en í dag svo varla hefur ástæðan verið grunur um kynþroska.

  Ekki var ég strákur svo varla var það eistnatékk. Hvernig var það annars í þínum skóla Keli, voru drengir og stúlkur saman í læknisskoðun?

  Posted by: Eva | 17.08.2007 | 15:39:36

  ——————————————————-

  Get heldur ekki ímyndað mér að tilgangurinn hafi verið sá að kanna hvort við værum vanrækt. Í þessum skóla voru dæmi um börn sem ólust upp við drykkjuskap, vanrækslu og ofbeldi sem allir vissu um en enginn skipti sér af.

  Posted by: Eva | 17.08.2007 | 16:00:48

  ——————————————————-

  Þessu man ég líka eftir og það var pískrað um að þetta yrði gert, því einhverjir áttu eldri systkini sem höfðu gengið í gegnum það sama. Aldrei vissi ég af hverju læknirinn þurfti að gera þetta. Greinilega eitthvað sem landlæknir hefur fyrirskipað.

  Posted by: Ragna | 17.08.2007 | 22:03:32

  ——————————————————-

  Ekki man ég eftir neinu svona tékki í þeim skólum sem ég var í.

  Posted by: Bogga | 18.08.2007 | 1:11:07

  ——————————————————-

  Ég man heldur ekki eftir því úr þessum 5 skólum sem ég hafði verið í áður.

  Posted by: Eva | 18.08.2007 | 9:22:33

  ——————————————————-

  Ég man eftir þessu úr barnaskóla og af þvíað ég er alltaf svo spurul þá man ég ekki betur en þetta hefði eitthvað með kviðslitsathugun að gera. Við vorum látin hósta. Merkilegt, ég hef aldrei hugsað um þetta en þegar ég las færsluna þína rifjaðist þetta upp.

  Posted by: Sigga | 18.08.2007 | 19:28:26

  ——————————————————-

  Ég hef ekkert leitt hugann að þessu í svo mörg ár og þótt ég hafi enga trú á að nokkurt okkar hafi beðið tjón á sálu sinni langar mig að fá almennilega skýringu á þessu. Ég myndi hafa samband við prestinn og spyrja hann út í þetta ef hann væri ekki látinn.

  Posted by: Eva | 18.08.2007 | 22:25:41

  ——————————————————-

  „Hvernig var það annars í þínum skóla Keli, voru drengir og stúlkur saman í læknisskoðun?“

  Ekki saman inn en á sama stað og sama dag já.

  Posted by: Þorkell | 18.08.2007 | 23:44:26

Lokað er á athugasemdir.