Einhliða umræða um kynlífsiðnað

sexwork4

Ég hef nokkrum sinnum orðið fyrir því að þeir sem eru mér ósammála um klám- og kynlífsgeirann telja að skoðanir mínar beri þess merki að ég viti ekki, eða trúi því ekki, að kúgun og glæpir tíðkist í kynlífsiðnaði. Ég hef áður áður komið inn á tengsl kapítalisma og vændis en líklega er ástæða til að skýra nánar hvað ég er að fara.

„Mannvirðing og réttlæti“ eru ekki einkennisorð neins kapílísks iðnaðar, hvort sem það er vændisgeirinn, stóriðja, vefnaðarvöruframleiðsla, stríðsrekstur eða coca cola. Ég efast ekkert um að hagsmunaklíkur klámiðnaðarins ljúgi til að fegra ímynd sína, rétt eins og t.d. Alcoa. Af einhverjum ástæðum (sennilega stöðluðum hugmyndum um kynlíf) er kynlífsiðnaðurinn samt eini geirinn, þar sem vitað er að mannréttindabrot viðgangast, sem fær einhverja athygli hér á landi, og þá yfirleitt með alhæfingum sem gefa afskaplega brenglaða mynd af veruleikanum. Tvískinnungurinn hefur sennilega náð hámarki þegar klámframleiðendur voru stöðvaðir í að halda árshátíð, á landi sem hikar aldrei við að bjóða stríðsherra Nató velkomna, sem og aðra jakkafataklædda fjöldamorðingja.

Það er athyglisvert við umræðuna um klám- og kynlífsgeirann að þeir sem halda henni lifandi hafa sjaldnast persónulega reynslu af þessum störfum.  Sjónarmið þeirra sem eru í slíkri þjónustu á eigin forsendum fá nánast aldrei að heyrast. Engin ástæða þykir til þess að taka mark á  þeim fjölmörgu konum sem berjast fyrir því að bjargvættir þeirra leyfi þeim að hafa eitthvað um sitt eigið öryggi að segja. Umfjöllun um þennan iðnað einkennist af því að dregin eru upp ömurlegustu dæmin um sundurlamda fíkniefnaneytendur og látið að því liggja að þar sé kominn Sannleikurinn með stórum staf. Tilgangurinn er alltaf sá að „bjarga“ konum. Jafnvel þótt þær frábiðji sér slíkar aðgerðir og haldi því sjálfar fram að slík hjálpsemi setji þær í hættu, er ekkert á það hlustað. Hjálpinni skal troðið upp á þær, gjarnan á þeirri forsendu að þær hafi orðið fyrir misnotkun sem börn, sem hlýtur náttúrulega að gera þær ófærar um að hugsa sjálfstætt.

Það einnig lýsandi fyrir þá sem flokka allan kynlífsiðnað sem þrælahald  að tala um „vísindalegar rannsóknir“ en geta þó ekki bent á þær. Jújú, það eru auðvitað til fjölmargar rannsóknir á fórnarlömbum kynlífsánauðar og ofbeldis, en bentu mér á rannsókn sem leiðir í ljós:

a) að fólk í kynlífsþjónustu líti almennt á sig sem þræla
b) líkur á að lög gegn vændiskaupum dragi úr kynlífsþrælkun.

Ég hef enn ekki séð sannanir fyrir þessu tvennu. Ég hef heldur ekki séð neinn svara því hversvegna ætti ekki með sömu rökum að uppræta aðrar iðngreinar.

One thought on “Einhliða umræða um kynlífsiðnað

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.