Eintal

Eva: Mig langar í karlmann.
Birta: Jæja. Af hverju ertu þá ekki löngu búin að verða þér úti um einn slíkan?
Eva: Það bara vill mig enginn. Ég veit; þú verður að gera það. Ég vil að þú farir og finnir mann handa okkur eigi síðar en í hvelli.
Birta: Ég get ekkert fundið almennilegan mann nema hafa réttu græjurnar og það vill svo til að við eigum enga skó með pinnahælum.
Eva: Þetta er stórt og mikið vandamál. Þér hefur ekkert dottið í hug að leysa það bara? Halda áfram að lesa

Gremj

Það eru ekki örlög mín að mála íbúðina. Hef verið með sinaskeiðabólgu síðan í desember og á sunnudagsmorguninn vaknaði ég svo slæm að mig verkjaði upp í olnboga við minnstu hreyfingu. Sé fram að þurfa að nota úlnliðina til að framfleyta mér svo ég ákvað að fresta framkvæmdum um nokkra daga. Gerði ekki handtak allan sunnudaginn og ekki í gær heldur en er samt ekkert skárri.

Markaðslögmál

Frá dyrunum var ekki að sjá að neinn væri í afgreiðslunni en einhver bauð nú samt góðan dag svo ég gekk að borðinu. Hún sat fyrir innan það og leit varla upp en hélt áfram að mata ungbarn sem sat þar í kerru á barnagraut.
-Ég ætla rétt að klára að gefa henni að borða, sagði hún svo án þess að vottaði fyrir nokkrum afsökunartón í röddinni og án þess að líta á mig. Halda áfram að lesa

Insect perspective

Og hvað ég vildi að hann væri hér núna, drengurinn sem flytur fjöll.

Beetle of strife
you´re the scholar of life
the insect perspective is modest
and quite valuable

-Þú veist að ég kem alltaf til þín, eins og fjallið sem kom til Múhammeðs.
-Eh … fjallið kom ekki til Múhammeðs, svara ég og reyni að forðast kennaratóninn.

-Þá flyt ég fjallið til Múhammeðs,  segir hann og heldur áfram að ryðja jarðveginn, hrúga upp heilu fjöllunum af frjósamri mold þótt hann viti vel að ég á ekkert til að planta.

Samt er ég góður strákur

Hvað er ég að gera hér? Þegar allt kemur til alls hef ég hvorki orðið þess vör að sýn hans á manneskjuna og heiminn sé áhugaverðari en gengur og gerist né hefur hann sýnt mér persónulega athygli eða kitlað hégómagirnd mína. Hann hann er frekar klár í venjulegri merkingu þess orðs en ekki djúpvitur. Hann segir skemmtilega frá en fyndni hans er ekki á neinum heimsmælikvarða. Mér finnst hann sætur en ekki svo íðilfagur að ég myndi nenna að hanga yfir honum klukkutímum saman bara þessvegna. Auk þess er kynslóðabil á milli okkar. Halda áfram að lesa

Smá

Skítsæld híbýla minna er með ólíkindum. Ég ætlaði að nota helgina til að mála en kom mér ekki á lappir fyrr en um 9 leytið í morgun, tók alltof langan tíma í bókhaldið og restin af deginum fór í að núllstilla skítsældarstuðul heimilisins. Reyndar er ég enn ekki farin að ráðast í meyjarskemmuna. Hélt til að byrja með að heimasætan væri kannski eitthvað minna skítsæl en sonur minn Fatfríður en það voru víst bara kynjafordómar hjá mér.

Er annars að fara í leikhús í kvöld. Með strák. Nánar tiltekið strák sem hefur ekki reynst jafn auðflekanlegur og hann lítur út fyrir að vera. Ég tók fram að þetta væri ekki hugsað sem deit svo hann beit í sig kjark og sló til. Þetta er allt að koma.

Dínamít er víst ekki á fjölunum í kvöld.

Tölfræði

Mér finnst dálítið merkileg þessi kenning um einn af hverjum tíu.

Talsmenn flestra minnihlutahópa tala um að einn af hverjum tíu lendi í dittinn dattinn. Einn af hverjum tíu er samkynhneigður, einn af hverjum tíu verður fyrir einelti í skóla, einn af hverjum tíu er með sértæka námsörðugleika (hversu margir ætli séu með „samtæka“ námserfiðleika?) Einn af hverjum tíu er afburðagreindur, einn af hverjum tíu er alki o.s.frv.

Stundum eru hlutföllin kannski einn af hverjum 20 eða einn af hverjum 5 en að meðaltali má reikna með að einn af hverjum tíu skeri sig úr.

Í hópi 10 félaga er semsé einn alki, einn hommi, einn bjáni, einn nörd, einn lesblindur, einn geðveikur, einn sem lendir í einelti, einn glæpon og einn gjaldþrota. Eftir er bara einn sem getur talist meðalmaður.

Það vill svo skemmtilega til að þessi eini er ég.
Það er semsé tölfræðileg staðreynd að ég er að jafnaði töluvert meðaltalslegri en meðalmaðurinn.