Tilraun til vopnaðs ráns

Í gær kom maður í annarlegu ástandi í Nornabúðina, gaufaði bitvopni upp úr rassvasanum og bað kurteislega um hundraðkall.

Spúnkhildur aftók með öllu að fyrirtækið hefði yfir að ráða hundraðköllum til ölmusugjafa og manngarmurinn paufaðist út, heldur sneypilegur.

Svo kom löggumann og hirti hann. Ég sárvorkenndi greyinu en það er ekki alveg víst að hann hefði mundað kutann af sama hengilmænuhætti gagnvart 12 ára barni eða íbúum elliheimilisins.

Gengisfall

Einu sinni var ég afskaplega hrifin af gáfuðu fólki.

Síðan hef ég smátt og smátt áttað mig á því að sumir þeirra sem sprengja skalann á greindarprófum, eru nánast þroskaheftir á tilfinningasviðinu. Margir auk þess svo útblásnir af innistæðulausri sjálfsánægju að þeim hættir til að vanmeta þá sem þeir skeina sig á.

Það er hættulegt að vanmeta andstæðing sinn en jafnvel ennþá hættulegra að vanmeta þá sem maður þarfnast. Hæfileikar fólks, greindarfar þess og vinnuframlag er ekki alltaf í réttu hlutfalli við gaspurgirni þess. Og músin sem læðist er ekki endilega huglaus eða heimsk.

Eða kannski er það ekki þrautseigja, heldur þörf hins vanmáttuga fyrir að vita sig loksins hinumegin við borðið.

Allt sem þú vilt geturðu fengið en stundum ekki fyrr en fyrr en þú kærir þig ekki um það lengur. Það er ljótur leikur að viðhalda væntingum sálar um eitthvað sem er ekki í boði og verður ekki í boði. Það hef ég aldrei gert og veit að þú myndir ekki gera það heldur. Þessvegna gæti ég treyst þér fyrir sjálfri mér.

Sálufélag er eins og öll önnur félög, eitthvað sem manneskjur búa til.

Þversögn lygalaupsins

Æfingin skapar meistarann. Samt eru þeir sem ljúga mikið ekki endilega góðir lygarar. Reyndar held ég að fyrsta lífsregla góðra lygara sé að ljúga ekki meiru en nauðsynlegt er.

Ég hef mikla reynslu af lélegum lygurum.
Ég veit ekki hvort ég hef reynslu af góðum lygurum, því góður lygari hefur vit á því að láta aðra ekki komast að því hvað hann er góður lygari. Kannski tekst góðum lygara að telja öllum trú um að hann sé lélegur lygari.

Ofnæmi?

Fyrst kenndi ég tilviljunum um en nú hefur gengið á þessum undarlegheitum í næstum 2 ár samfleytt.

Í hvert sinn sem ég kemst í hvíslfæri við karlmann sem hugsanlegt er að ég gæti með góðum vilja orðið ástfangin af, fæ ég líkamleg höfnunareinkenni sem eiga sér enga læknisfræðilega skýringu. Halda áfram að lesa

Ef…

Galdurinn hefur þá borið árangur eftir allt saman? segir maðurinn sem hlustar á hjarta mitt slá en í þetta sinn á hann ekki kollgátuna. Barnlaus maður búsettur í annarri heimsálfu er ekki á óskalistanum, jafnvel þótt það gæti gengið ef gult væri blátt væri rautt.

Varla

Fyrstu tilraunir mínar til ástargaldurs misheppnuðust illilega. Hver maðurinn á fætur öðrum fór úr landi í stað þess að koma hlaupandi til mín. Kannski er þetta enn eitt dæmið um misheppnaðan galdur? Ég bið um hentugan maka og þá kemur elskhugi, sem alls ekki kemur til greina sem maki, stormandi frá útlöndum og kippir mér úr galdragírnum með pinnaskóm.

Og kannski hefði ég tekið því sem merki um að eitthvað hefði gengið upp, ef líkami minn hefði ekki, þrátt fyrir allan þennan Maríustakk, tekið upp á því að hafna honum. Ekki veit ég hvaða töfrar það eru, þetta á ekki einu sinni að vera líffræðilega mögulegt.

Jahérna

Fullt tungl í dag og ég undirbý aðra tilraun til ástargaldurs þegar einhver bankar upp á í Nornabúðinni. Kominn frá Bandaríkjunum og með gjafir handa mér.

Síðast fékk ég Solitary Witch sem nú liggur frammi í búðinni fyrir þá sem vilja fræðast um wicca. Í þetta sinn færir hann mér rautt peningabelti, sem merkir að hann veit að ég lærði magadans í vetur -sem merkir aftur á móti að hann hefur lesið vefbókina mína. Ekki nóg með það heldur skó, með pinnahælum sem passa á mig! Gullfallega í þokkabót. Sem merkir að hann er ennþá að lesa vefbókina mína.

Frekari galdratilraunir fóru út um þúfur.