Dilemma dagsins

Setjum sem svo að maki þinn tilkynni sambúðarslit nokkrum dögum fyrir brúðkaupsafmæli og þú værir þegar búin að kaupa gjöf handa honum, hvern fjandann ættirðu þá að gera við gjöfina?

-Væri ekki full kaldhæðnislegt að færa honum hana samt?
-Kannski gætirðu gefið honum hana við annað tilefni en málið er að ÞÚ veist hvað hún táknar og þú varst búin að sjá fyrir þér hvernig þið mynduð fagna þessum áfanga.
-Henda henni til merkis um að það hafi hvort sem er ekkert verið að marka þetta samband? Kommon, ef þú ert orðin ólétt, þá geturðu ekki bara gleymt sæðisberanum.
-Fara í fóstureyðingu OG henda gjöfinni. Það væri hátt verð fyrir eina litla ástarsorg.

Það er lúxus ríka mannsins að geta velt sér svona upp úr ímynduðum aðstæðum. Hvaða ímynduðu dramaköst skyldi Mammon færa mér næsta sumar?

EKKI AFTUR!

Hvað í fjandanum er eiginlega að mér? Heilabilun?

Þegar notalegur, glaðvær karlmaður, hjálpsemin uppmáluð og ekkert nema séntilmennskan, duglegur og kann á borvél, með fjármálin í lagi, ekkert óuppgert fyrrikonudrama, með heilbrigð og stálpuð börn, heilbrigð lífsviðhorf, reyklaus hófdrykkjumaður, snyrtilegur í umgengni og yfirhöfuð vænsti náungi, sýnir mér áhuga (einlægan áhuga en ekki kynferðislega áreitni) verð ég álíka ástríðufull og frosin ýsa. Halda áfram að lesa

Lenti í löggunni

Jamm, ég lenti sumsé í löggunni.

Við Anna fórum á djammið á föstudagskvöldið. Ég er ekki góð í því að djamma. Held svei mér þá að ég hafi staðið mig betur í frystihúsinu á Tálknafirði forðum daga (aldrei hefur hæfileikaleysi mitt rist dýpra, hvað þá áhugaleysið) og fór heim edrú, ein og með sjálfstraustið í molum. Reyndi að sannfæra sjálfa mig um að færni manns til að skilja skemmtanagildi þess að öskra upp í eyrun á ókunnugu fólki, jafnframt því að berjast gegn súrefnisskorti og táraflóði af völdum reykeitrunar á þeim tíma sem náttúran ætlaði okkur að vera sofandi, væri ekki algildur mælikvarði á manngildi fagurrar konu. Það mistókst. Halda áfram að lesa

Kraftur í safnið

Þessi vika hefur verið sannkallað sumarfrí. Kraftasafnið mitt er orðið svo stórt að það kemst vara fyrir í geymslunni.

Ég er að vísu búin að lóða helling og steypa kerti, mála rúnir, þvo og þrífa og sitja fundi út af jafn leiðinlegum hlutum og bókhaldi en ég er líka búin að hvíla mig, horfa á sjónvarpið, mæta í matarboð, halda matarboð, fara til spákonu, nota pinnahælana frá Ameríkunni tvö kvöld í röð! fá fréttir sem ég veit ekki hvort eru góðar eða slæmar, lenda í þriðju gráðu lögregluyfirheyrslu og setja á mig andlitsmaska. Svo er Málarinn búinn að setja upp vinnuljós í eldhúsinu og herða allar skúfur í eldhússinnréttingunni svo heimilið er óðum að verða fullkomið eins og allt annað í lífi mínu.

Í dag ætla ég að ráða krossgátu og drekka kappútsínó. Það er nefnilega hamingjan. Svo ætla ég í Grasagarðinn og sýna dindilhosunum Ingibjörgu og Sigrúnu forvitnilegasta skilti sem sett hefur verið upp á Íslandi -ever.

Já það er fjör.

Bráðum koma blessuð jólin

Skjótt skipast þau já.

Þar sem hefð hefur myndast fyrir því að konan sem ég elska fái ný og ómótstæðileg karríertækifæri á 6 vikna fresti (og taki þeim öllum), fæ ég nú á næstunni, gegn gjaldi sem ég veit ekki hvernig ég ætla að greiða, tækifæri til að bæta við mig ríflega 100 vinnustundum á mánuði. Ég hef ákveðið að borga það gjald brosandi. Ég hef hinsvegar ekki enn tekið afstöðu til þess hvort ég á að líta á það sem refsingu Mammons fyrir að hafa hegðað mér eins og fáviti gegn betri vitund eða verðlaun fyrir að hafa sýnt þolinmæði, langt umfram það sem er mér eðlilegt.

Í augnablikinu lítur út fyrir að ég verði að fresta ástargaldrinum einn mánuðinn enn, en skítt með það. Mammon hefur staðið með mér hingað til og hann veit áreiðanlega hvað hann er að gera.

Annar þjófur

Síðustu nótt braust einhver inn í búðina mína án þess að valda neinum skaða svo vitað sé. Í nótt hafði einhver fyrir því að rífa númeraplötu af bílnum mínum og leggja hana snyrtilega ofan á toppinn.

Ef bíllinn hefði staðið við búðina eða á planinu fyrir framan blokkina þar sem ég bý, hefði ég velt því fyrir mér hvort sama fólk hefði verið að verki. Ég hef hinsvegar ekki trú á því að ég eigi svo ötula umsátursmenn að þeir hafi komist að því að ég yrði niðri í miðbæ, á bílnum, í nótt. Ég er ekki beinlínis þekkt fyrir djammfíkn og hef ekki rætt áform mín um að verða mér úti um lungnakrabba og skítalykt í kvöld, við neinn nema Önnu. Tel því ósennilegt að nokkur tengsl séu á milli þessara atburða, nema þá helst táknræn. Þau eru hinsvegar staðfesting þess að ég hef dottið niður á sérdeilis góðan þjófagaldur.