Í dag er ég glaður

Málarinn er sannkallaður hvalreki. Í dag stækkaði hann salinn sem sumir hafa af fávisku sinni kallað því tilkomulitla nafni bakherbergi. Hnuss!

Það er ótrúlegt hverju tveir karlmenn, glussatjakkur og verkfærasett geta áorkað. Einn veggur horfinn og í stað hans fæ ég hljóðeinangrað klósett, loftræsingu og meira rými. Heilbrigðiseftirlitið á eftir að gráta af gleði. Leirbrennsluofninn búinn að fá hlutverk, rúmskriflið hans Helga farið og sófinn kominn niður í kjallara í staðinn. Ekki nóg með það heldur galdraði hann burtu allar innréttingarnar, spónaplötunar, speglana og hjólaborðin hans Helga en samt er alveg jafn mikið pláss í kjallaranum og áður. Ég veit ekki í hverskonar fullkomnun þetta endar.
Vííí!

Að hætti Nönnu

Málarinn bauð mér í Krómhjartarsteik, sem ég hef ekki borðað fyrr og dásamlegusu kartöflumús sem ég hef bragðað. Ég veit ekki alveg hvort ég á fremur að beina matarást minni að Málararnum eða Nönnu en það er bara eitthvað svo rétt við þessa samsetningu að ég hlýt að elska einhvern fyrir hana.

Ég elska líka Stúdentafélag Háskóla Reykjavíkur en það er af allt öðrum ástæðum.

Þú bara kláraðir!

Eva: Ég pantaði vörur frá ykkur fyrir viku en þær hafa ekki borist.
Heildsalinn (gremjulega með útspýttum fráblásturshljóðum): Já þetta er bara ekkert til.
Eva: Ég pantaði margar tegundir, áttu ekki neitt af því sem ég bað um?
Heildsalinn (á barmi frekjukasts): Nei nei, þú kláraðir lagerinn síðast.
Eva (með ískaldri kurteisi):Afsakaðu ónæðið, ég leita bara eitthvert annað. Halda áfram að lesa

Meiri kynning

Í ágúst birtist viðtal við mig í norsku tímariti. Í dag kom franskur kvikmyndagerðarmaður með fríðu föruneyti. Hann er að gera kvikmynd um fegurð og ég átti sumsé að skilgreina „innri fegurð“ og tengsl hennar við galdur. Ég sagði honum sem satt er að „innri fegurð“ hefði nú bara verið fundin upp til að hugga ljóta fólkið. Svo sneri ég viðtalinu upp í tengsl feminisma og gandreiða.

Fjölmiðlar eru góðir við mig. Ekki bara íslenskir fjölmiðlar. Ég er svona að velta því fyrir mér hvaða áhrif það hefði ef ég kæmi mér upp alvöru athyglissýki.

Takk FM

Ég hélt að þessi stóri sölukippur síðustu daga stæði í sambandi við nýtt visatímabil en í gær frétti ég að ég hefði fengið þessa fínu auglýsingu á FM.

Takk fyrir mig 🙂

Björgunaraðgerð

Ég fór út til að grafa holu og áttaði mig þá á því að ég þyrfti að grafa fleira en hræið af kettinum. T.d. áform sem kosta mig meira strit en ánægju. Þegar allt kemur til alls var tilgangurinn sá að gera ekkert sem ég vildi ekki og allt sem ég vildi og undanfarna mánuði hefur það klikkað oftar en ég er sátt við. Halda áfram að lesa