Undir þindinni

Ljúflingur: Eigum við að láta græða lófann á mér undir bringspjalirnar á þér?
Eva: Þú þjáist ekki af skuldbindingafælni.
Ljúflingur: Mér finnst stórmerkilegt hvað þér finnst gott að láta þrýsta undir þindina í þér.
Eva: Öllum finnst þetta gott. Það af því að öryggistilfinningin býr í þindinni.
Ljúflingur: Þér finnst þetta betra en flestum öðrum og samt ertu ekkert öryggislaus.
Eva: Ætli þindin sé svona óuppgötvaður nautnablettur?
Ljúflingur: Nei, ég held að undirvitundin þín sé að reyna að herma eftir tilfinningunni sem þú fannst þegar þú varst ólétt og börnin þrýstu þindinni upp. Halda áfram að lesa

Árangur 2

Hver sagði annars að mörkin milli geðveiki og snilldar lægju í árangri?

Kannski skiptir ekki máli hver sagði það. Sagan man nöfn mikilla manna og kennir börnum þau. En þegar sagan man verkin eða ummælin en gleymir nafninu, þá hefur viðkomandi náð árangri.

Árangur

Auðvitað tókst það, það tekst alltaf. Í hvert einasta sinn sem maður virkilega leggur sig fram. Samt svo gott að fá staðfestingu.

Tilfinningin, voldug og sterk flóðbylgja. Maður finnur fyrst fyrir henni bak við þindina þótt maður viti að hún eigi upptök sín í heilanum. Einhvernveginn eins og öfugt kvíðakast, breiðist út frá þindinni í stað þess að draga hana saman í hnút. Hlý og mjúk og svört eins og flauel.

Það eru nú meiri örlagalúserarnir sem stytta sér leið með kókaíni þegar er hægt að upplifa mikilmennskubrjálæði án þess að borga fyrir það offjár og skemma í sér heilatuðruna í leiðinni, bara með því að setja sér fullkomlega óraunhæft markmið og ná því.

Gunnlaðarsaga á sviði

Sáum Gunnlaðarsögu hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu í gær. Stórkostleg saga á skilið að fá stórkostlega uppfærslu og ef tvö stærstu hlutverkin hefðu verið almennilega leikin hefði þetta verið fínt en því miður ræður leikurinn bara úrslitum. Ofleikur var áberandi, einkum hjá mömmunni, sem kunni heldur ekki textann nógu vel og hjá Dís sem stóð á orgunum og grenjaði á milli þess sem móðirin gerði það, stundum hljóðuðu þær báðar í einu. Það bætir svo ekki úr skák að á köflum er textinn alltof ljóðrænn til að þola ofleik. Halda áfram að lesa

Ögurstund

Ef þú ýtir meðvitað á rauða takkann, þennan eina sem ég er margbúin að vara vini og vandamenn við að ýta á, þá skaltu búast við að slái á höndina. Ef þú gerir það aftur, skaltu reikna með að ég bíti af þér hausinn.

Að gefa höggstað á sér með því að upplýsa sína nánustu um hvað maður þolir ekki, merkir ekki að þar með muni maður taka högginu án þess að slá á móti. Friðsamleg samskipti þegar það er mögulegt takk, en ef þú vilt leiðindi þá geturðu fengið þau.

Oftast er það maðurinn sjálfur sem skapar sér ögurstundir.

Sumir hlæja

Ég hlæ upphátt 5-6 sinnum á dag. Þ.e.a.s. ef ég hef félagsskap, ég hlæ sjaldan ein. Sumum finnst beinlínis óþægilegt að fara með mér í bíó eða leikhús af því að ég hlæ svo mikið og stundum ein í þokkabót. Í gær var mér sagt að ég hlæi stundum að einhverju sem er ekkert fyndið.

Og þá fór ég að hugsa um húmor. Af hverju hlæjum við? Mér koma nokkrar skýringar í hug. Halda áfram að lesa

Allt að gerast

Gifsveggur með einangrun verður að teljast ívið betri kostur en masónítplata. Hátíðasalurinn (sem sumir hafa af fávisku sinni kallað því óvirðulega nafni bakherbergi) hefur stækkað um 3 borð. Það verða nóg verkefni fyrir Saumfríði á næstunni.