Leiðrétting

Í gær þurfti ég að eyða klukkutíma á biðstofu. Tók upp sorprit af tilviljun og við mér blasti umfjöllun frá des 2005, sem ég hef ekki séð fyrr, þar sem Nornabúðin kemur við sögu. Þar er það haft eftir mér að með Ægishjálmi megi hleypa bráðabrókarsótt í konur.

Þetta hef ég auðvitað aldrei sagt enda er þetta tóm tjara. Eina leiðin sem ég þekki sem er til þess fallin að nota Ægishjálm í þeim tilgangi að koma konu til, er sú að húðflúra hann á kviðinn á Johnny Depp.

Leyniskjalið

Ég hef ekki verið eldri en fjögurra ára, kannski yngri, þegar ég áttaði mig á því að ef einhverju var haldið leyndu fyrir mér var ástæðan annað hvort mjög ánægjuleg, (t.d. afmælisgjöf) eða þá að leyndóið var líklegt til að vekja áköf mótmæli af minni hálfu. Halda áfram að lesa

Svindl

Ég er búin að verða mér úti um búning fyrir grímuballið hennar Önnu.

Nú þarf ég bara að færa 300 grömm af hvoru læri upp á brjóst. Sjálfvirka keppahristan mín fer langleiðina með það og restin hefst með kranavatni, feitum fiski og grænmeti. Auðvitað svindlar maður á hjarta og lungum með því að koma sér í form án hreyfingar en það er nú ekki eins og ég sé á leiðinni í World Class hvort sem er og trimform gerir mig flottari á einni viku en sund á þremur mánuðum. Gæti sjálfsagt náð svipuðu lúkki með pússööps og sjokköpps en mér finnst gaman að vera nakin.

Þessir mikilvægu hlutir

Mamma, má ég ekki gista hjá Vésteini? sagði Byltingin.

Sonur minn er tvítugur. Hann spurði mig ekki álits þegar hann ákvað að eyða lunganum úr sumrinu í að hlekkja sig við vinnuvélar uppi á hálendinu og príla í byggingarkrönum á Reyðarfirði. (Ekki svo að skilja að ég hefði sett mig á móti því.) Hann hefur heldur ekki gefið mér neitt úrslitavald um fyrirhugaða glæfraför sína til Palestínu eftir áramót.

Grimmd

-Þú ættir að segja mér að láta þig í friði. Sjálfrar þín vegna. Þig vantar maka og þú finnur hann ekki á meðan ég er til staðar.
Ég hnussaði.
-Þú ofmetur áhrifavald þitt elskan. Ég fann Óttar þótt þú værir eins og grár köttur í kringum mig.
Hann hristi höfuðið óvenju alvarlegur í bragði.
-Þegar þú fórst að vera með Óttari var ég úti á landi. Halda áfram að lesa

Sálfræði harmarunkarans

Sumt fólk þarf ekki að fróa sér. Það upplifir alla þá sælu sem það þarf með því að velta sér upp úr misraunverulegum tragedíum annarra. Þetta er oftast almennilegasta fólk, sem ekki er annað að sjá en vilji öllum vel og það er ekkert endilega slúðurberar þótt þetta tvennt geti vissulega farið saman.

Harmarunkarinn þrífst á hugarangri. Hann ber með sér tilhneigingu til að draga fram allt sem hugsanlega gæti verið erfitt, neikvætt og niðurrífandi ef ekki í fortíð, þá í framtíð. Hann þekkist á krónískum mæðusvip og siglir undir merkjum umhyggju og vinsemdar í garð allra, einkum þeirra sem hann á engin náin tengsl við. Hann hefur allar samræður á því að spyrja um heilsufar þeirra ættingja sem vænta má að hafi átt við einhvern lasleika að stríða, fikrar sig yfir í umræður um drykkjuskap fjarskyldra ættingja, þaðan í vandræðabörn innan fjölskyldunnar, fjármálaklúður eða atvinnudrama vina og kunningja eða hvað eina annað sem hægt er að finna á einhvern tragískan flöt til að runka dramsýki sinni. Aldrei vottar fyrir illkvittni í armæðu hans, en áhyggjur hans af málum sem koma honum ekkert við, eru bæði verulegar og varnalegar og samúð hans er átakanleg.

Harmarunkarinn tekur heilshugar undir umræður um þá sem njóta velgengni en þó einatt með þeirri áherslu að velgengin gæti verið á undanhaldi. Hjarta hans titrar gleði yfir börnum sem standa sig vel í skóla eða tómstundastarfi og hæst rís gleði hans þegar tilefni gefst til að fylgja þeirri umræðu eftir með „ja það er nú eitthvað annað en hún frænka hans, mikið lifandisósköp…“ á innsoginu. Ef maður lýsir aðdáun sinni á hvunndagshetju sem hefur náð af sér 40 kg, leggur harmarunkarinn mikið upp úr því hvað viðkomandi var orðinn skelfilega illa á sig kominn áður en hann tók sig á. Þegar hann spyr hvernig gangi hjá manni sjálfum, setur hann spurninguna fram með angistarfullum munnviprum og vottar fyrir kvíða í röddinni, rétt eins og hann búist allt eins við að fá enga staðfestingu á því að líf manns sé í rúst og þurfa jafnvel að fjárfesta í fokdýru kynlífsleikfangi til að fá það sem hann þarf.

Eftir ógnarlanga skýrslu um hagi fólks sem ég þekki varla nema í sjón, og úrkula vonar um að ég vissi nokkuð bitastætt um hina ýmsustu harmleiki innan fjölskyldunnar, gerði harmarunkarinn tilraun til að beina tregasköndli sínum að mér. Halda áfram að lesa

Endurskoðun

Ég komst að niðurstöðu og það var góð niðurstaða og skynsamleg og rétt líka. Rómantísk ást er ónauðsynleg og oftar en ekki til óþurftar.

Ég kastaði ástargaldri og pantaði þægilegan mann, ekki alkóhólista, sem yrði góður við mig og kynni á borvél. Hann gaf sig fram og ég íhugaði alvarlega að slá til. Þar sem ég sýndi honum engan kynferðislegan áhuga (það virðist vera pottþétt leið til að gera karlmenn ástfangna)varð hann bálskotinn í mér og því meiri almennilegheit sem hann sýndi mér, því hrifnari varð ég af Elíasi, sem kæmi ekki undir nokkrum kringumstæðum til greina sem lífsförunautur. Halda áfram að lesa