Pólitísk aðgerð þann 18. des 2008
Fjármálaeftirlitið hefur brugðist þeirri skyldu sinni að veita viðskiptalífinu aðhald og eftirlit. Sú vanræksla er ein af ástæðum þess að þúsundir Íslendinga sjá fram á atvinnuleysi, eignamissi og jafnvel gjaldþrot. Almenningur stendur varnarlaus gegn afglöpum fjármálaeftirlitsins en stjórnarmenn sitja þó sem fastast í hálaunastöðum sínum, staðráðnir í að firra sig ábyrgð.
Í dag komum við saman í húsi fjármálaeftirlitsins, í þeim tilgangi að raska ró þeirra sem hér hafa verið að dunda sér við eitthvað allt annað en að sinna störfum í þágu þjóðarinnar. Við krefjumst þess að stjórn fjármálaeftirlitsins segi af sér og gefi viðunandi skýringar á því hvernig yfirvofandi bankahrun og það sjónarspil sem átt hefur sér stað í viðskiptalífinu, gat farið fram hjá þeim.
Við sættum okkur ekki við að þeir sem bera ábyrgð á efnahagshruninu haldi áfram að mata krókinn á kostnað almennings. Við krefjumst þess að stjórn fjármálaeftirlitsins víki.