Heiðarleiki Jónínu Ben

Hvaða skilning ætli þessi manneskja leggi í orðið drenglyndi?

Hún sér hvorki neitt athugavert við fjárkúgun (því fjárkúgun er það enda þótt hinn kúgaði sé drulluhali) né að svíkja loforð um að halda sér saman eftir að hafa tekið þátt í bankaráni á þennan hátt.

Mikið lifandis skelfing finnst mér annars gott á Jónínu Ben og Gunnar í Krossinum að vera gift hvort öðru. Hallelújah fyrir réttlætinu. Yndislegasta bölvun sem hægt er að leggja á vondar manneskjur er sú að láta þær sjá um að afhjúpa sig sjálfar. Það hefur greinilega virkað á Jónínu.

Íhaldssamir unglingar

Hér er því haldið fram að ungmenni séu íhalssamari en áður. Ég efast.

Íhaldssömustu viðhorfin ríkja þar sem klám er óaðgengilegt og refsivert. Mér finnst mun líklegra að þessi nýja íhaldssemi standi í sambandi við þá staðreynd að konur eru að sækja á, eru t.d. í yfirgæfandi meirihluta háskólanema. Ég held að þessir drengir séu óöruggir um stöðu sína í heimi jafnréttis en ekki fordómafullir klámhundar.

Ruglið í Snorra í Betel

Þetta er nú meira kjaftæðið. Það hefur ekki nokkur maður sem hugsanlega gæti haft áhrif óskað þess að prestum verði meinaður aðgangur að skólum í hlutverki foreldra. Þeir eru jafn velkomnir SEM FORELDRAR og t.d. eigendur pizzustaða, en á sama hátt beðnir vinsamlegast að nota annan vettvang til að auglýsa þjónustu sína….

Það er ekki lífsskoðun að vera samkynheigður. Ekki frekar en að vera örvhentur. Ef það að vera örvhentur væri feimnismál og oft notað sem átylla fyrir mismunun, þá væri eðlilegt að samtök örvhentra fengju tækifæri til að berjast gegn fordómunum.

Mér þætti líka fróðlegt að vita hvað maðurinn á við með því að fólk í dag krefjist þess strax að foreldrar þeirra séu settir á líknandi meðferð. Aldrei í veraldarsögunni hefur lífinu verið haldið í fólki jafn lengi (og oft að ástæðulausu). Sjálf hef ég unnið á elliheimilinum og ekki kannast ég við allt þetta fólk sem endilega vill foreldra sína eða afa og ömmur út úr heiminum. Líknandi meðferð er beitt þegar hverfandi líkur eru taldar á að viðkomandi geti lifað við sæmilega meðvitund án mikilla og stöðugra þjáninga.

Er gæludýrafóður það besta fyrir dýr?

Margir hafa sagt mér að hundar og kettir eigi helst ekki að fá neitt annað en þurrfóður. Kannski í lagi að gefa smá dósamat sem nammi ef maður vill dekra við dýrið en það eigi ekki að líta á neitt annað en sérhannað gæludýrafóður sem mat fyrir þau. Ástæðan ku vera sú að þurrfóðrið sé rétt samsett miðað við þarfir dýrsins, það fari vel með meltinguna, feldinn og sé á allan hátt hollt. Dýralæknar mæli með því og mest með dýrustu tegundum á markaðnum.

Nú vex þurrfóður ekki í náttúrunni og það hefur svona hvarflað að mér að þessi hugmynd sé komin frá þeim sem framleiða og selja gæludýrafóður. Mér hefur líka dottið í hug að þeir sem hafa beinan hag af því að sem mest seljist, séu kannski ekki alveg hlutlausir. Það hefur jafnvel hvarflað að mér að ef lyfjafyrirtæki telja rétt og gott að gera vel við lækna sem hugsanlega munu hafa áhrif á lyfjaval sjúklinga, þá sé ekki útilokað að dýrafóðursframleiðendur og dýralæknar tilheyri sama ‘tengslaneti’ (tengslanet er auðvitað allt annað og miklu fínna en klíka).

Hvað segja þeir sem hafa reynslu af gæludýrahaldi? Eru dýr sem lifa aðallega á þurrfóðri heilbrigðari og hamingjusamari en þau sem fá líka eða jafnvel eingöngu leifar af heimilismatnum?

Tjásur

Halda áfram að lesa

Í erlendum löndum

Ósköp leiðist mér að heyra fólk tala um (eða sjá skrifað) það sem gerist „í erlendum löndum“. Ýmislegt gerist bæði vont og gott, erlendis, í útlöndum eða í öðrum löndum. Finnist mönnum þetta ekki nógu fjölbreytilegt val má segja utan lands, í fjarskanum eða úti í hinum stóra heimi. Í alvöru, það hlýtur að vera mögulegt að orða þetta á skammlausri íslensku.