Fimmtán manns kærðir fyrir að pissa í miðbænum. Hversu margir ætli hafi þá sloppið?
Víst er að hér er ekki aðeins um að ræða umfangsmikið vandamál, heldur einnig vannýtta tekjulind. Einhvernveginn þarf að fjármagna þessi störf lögreglunnar sem eflaust hefur í ýmsu öðru að snúast, auk þess sem hlandstækjan truflar að líkindum næmt þefskyn þeirra lögregluþjóna sem gerðir eru út af örkinni til þess að hnusa eftir kannabisræktun. Auðvitað mætti koma á sérstökum hlandskatti en þar sem margir kasta aldrei af sér vatni á almannafæri væri það varla sanngjarnt. Það væri hinsvegar bæði hægt að auka tekjur ríkissjóðs stórlega og jafnframt skapa mörg störf með því að koma á sérstöku þvaglátaeftirliti.
Skikka þarf alla borgara til að skila inn þvagsýni við 15 ára aldur. Ráða svo sérstakt fólk, svokallaða hlandverði, til að fara með þvagleitartæki um bæinn á morgnana. Einnig þarf að koma á sérstakri þvaggreiningarstöð, þar sem hver pissupollur er rakinn til brotamannsins og senda fólki einfaldlega sektarmiða, líkt og stöðumælasektir.