Óslóartréð harmað

Jón Gnarr er nú stundum dálítið skrýtinn.

Hroðalegt alveg að kveikja í jólatré sem hefur staðið þremur vikum fram yfir jól án þess að borgaryfirvöld hirtu um að láta fjarlægja það (og væntanlega saga það niður með ofbeldi). Keli vinur minn sem býr í Noregi hefur bent á að hneykslunina sem þetta tiltæki vakti meðal Norðmanna, megi merkja af fjölmiðlaumfjöllun um málið. Sem var engin, neinsstaðar nema á Íslandi.

Læk

Sú ákvörðun að birta pistla á Eyjunni hefur vafist fyrir mér. Að sumu leyti af því að mér þykir vænt um lénin mín. Að sumu leyti af því að ég er ekki hrifin af útliti Eyjunnar og finnst dálítið kvíðvænlegt að geta ekki stjórnað útlitinu á mínu svæði sjálf. Auk þess er ég ofboðslegur tækniklaufi en það stoppar mig ekkert í því að prófa eitthvað sem ég kann ekki á, svo ég sá fyrir mér endalaust vesen ef ég gæti ekki kvabbað í mínum eigin sérlegu aðstoðarmönnum til að laga til eftir mig þegar ég er búin að klúðra einhverju.

Ég lenti strax í smávegis tækilegum vandræðum þegar ég fór fyrst inn á vefsvæðið. Varð auk þess frekar pirruð þegar ég sá að lokað er fyrir möguleikann á að setja inn viðbætur. Ég hafði samband við umsjónarmann vefsins, Birgi Erlendsson og spurði hvort hann gæti aðstoðað mig. Það var síðla kvölds og ég átti alls ekki von á svari fyrr en í fyrsta lagi næsta dag en viðbrögðin komu ánægjulega á óvart. Viðbótin var sett inn strax, öllum spurningum svarað vel og skilmerkilega og öll vandamál leyst í hvelli.

Ég er hæstánægð með þessa þjónustu; eða eins og netverjar segja “læk!”

Bætt götuheiti

Nú þegar réttarstaða kvenna í Reykjavík hefur stórbatnað með nýjum götuheitum, ættum við að ganga skrefinu lengra og endurnefna borgina. Hún ætti að heita Gufuvík. Það er bæði réttara vegna þess að það sem Golli hélt að væri reykur var í raun gufa en auk þess er gufa kvenkynsorð og við hæfi að taka það upp, úr því að ekki rýkur lengur af eldum feðraveldisins.

Ekki stela kardó, steldu frekar 100 milljónum

Það er ekki fallega gert að stela beikoni og kökudropum frá varnarlausu fyrirtæki en hvaða gagn skyldi það nú eiga að gera að dæma manninn í skilorðsbundið fangelsi? Telja menn að það sé góð leið til að kenna honum að hætta að stela kökudropum?

Það er ömurlegt kerfi sem refsar útigangsmönnum og alkóhólistum fyrir sjúkleika sinn. Sama ömurlega kerfið og það sem sendir róna út á götuna með hótun um fangelsi ef hann finni sér ekki löglega leið til að verða sér úti um áfengi, býður ekki upp á neina leið til að taka á fólki sem dæmir sjálfu sér tvöfaldar mánaðartekjur öryrkja á dag (miðað við að það vinni alla daga.)  Ekki einu sinni skilorð.

Mig langar ofboðslega mikið að vita hversu langt svona skítapakk getur leyft sér að ganga. Ef fólk má taka sér 270 þúsund í daglaun af hverju þá ekki alveg eins 300 þúsund eða tvær milljónir? Er nokkuð í lögum sem takmarkar rétt sjálftökufólks? Og ef svo er ekki, á virkilega ekkert að breyta því?

Afsökunarbeiðni til DV

Í pistli sem ég skrifaði í morgun kemur fram bagaleg villa en ég sagði að svo virtist sem Smugan hefði ætlað að taka vitleysuna upp eftir DV.

Fyrirsögnin sem kemur fram í vefslóð Smugunnar, og olli greinilegum misskilningi svosem sjá má af ummælum í umræðukerfinu sem og af því að þekktir bloggarar töldu víst að maðurinn væri í samfélagsþjónustu, er semsagt kveikjan að frétt DV en ekki öfugt.

Ég hefði þurft að fara betur yfir áður en ég birti þetta og kann ég Ingimar Karli Helgasyni bestu þakkir fyrir að vekja athygli á því að það er Smugan en ekki DV sem ber mesta ábyrgð á þessari röngu frétt.

Þvaglátaeftirlit ríkisins

Fimmtán manns kærðir fyrir að pissa í miðbænum. Hversu margir ætli hafi þá sloppið?

Víst er að hér er ekki aðeins um að ræða umfangsmikið vandamál, heldur einnig vannýtta tekjulind. Einhvernveginn þarf að fjármagna þessi störf lögreglunnar sem eflaust hefur í ýmsu öðru að snúast, auk þess sem hlandstækjan truflar að líkindum næmt þefskyn þeirra lögregluþjóna sem gerðir eru út af örkinni til þess að hnusa eftir kannabisræktun. Auðvitað mætti koma á sérstökum hlandskatti en þar sem margir kasta aldrei af sér vatni á almannafæri væri það varla sanngjarnt. Það væri hinsvegar bæði hægt að auka tekjur ríkissjóðs stórlega og jafnframt skapa mörg störf með því að koma á sérstöku þvaglátaeftirliti.

Skikka þarf alla borgara til að skila inn þvagsýni við 15 ára aldur. Ráða svo sérstakt fólk, svokallaða hlandverði, til að fara með þvagleitartæki um bæinn á morgnana. Einnig þarf að koma á sérstakri þvaggreiningarstöð, þar sem hver pissupollur er rakinn til brotamannsins  og senda fólki einfaldlega sektarmiða, líkt og stöðumælasektir.

Hvað hefur hann sem hún hefur ekki?

f5321aec59366e37760373cd312123c5_robert_marshall

priyanka-thapa

Getur einhver sagt mér hvað það er sem þessi maður hefur sem þessi kona hefur ekki?

Íslenskur ríkisborgararéttur að sjálfsögðu en það sem ég á við er hvað það er sem gerir hann nógu merkilegan til að njóta verndar íslenska ríkisins og hvað það er sem gerir hana óverðuga þess að njóta mannréttinda?