Mannanafnalög eru ónothæf

Markmið mannanafnalaga er að stuðla að því að Íslendingar beri nöfn sem falla að beygingar- og hljóðkerfinu, lúti almennum stafsetningarreglum og séu fólki sæmandi.

Þegar listinn yfir leyfð mannanöfn er skoðaður kemur þó í ljós að undantekningarnar frá reglunum eru svo margar að reglurnar eru nánast ónothæfar. Það sem er leyfilegt í einu tilviki er bannað í öðru og þegar upp er staðið eru einu rökin þau að við séum orðin vön því að heyra annað nafnið en ekki hitt.

Af hverju græn?

Grænsápa. Þessi appelsínugula jurtasápa. Af hverju er hún kölluð grænsápa? Af hverju ekki appelsínugulsápa? Óþjált orð, vissulega en væri þá ekki gulsápa eða jafnvel rauðsápa nær lagi? Er grænsápuheitið kannski tengt því að hún er unnin úr grösum? Grænum grösum? Gott og vel en af hverju heitir hún þá brúnsápa á öðrum Norðurlandamálum?

Auðvitað er Guð til

Auðvitað er Guð til. Fólk hefur reynslu af honum og við getum ekkert hafnað þeirri reynslu. Hvort sú reynsla samræmist raunveruleikanum er svo annað mál.

Ég held að það sem skiptir mestu máli um það hvort fólk verður trúað eða ekki sé það hvort Guð lendir í „raunverulega flokknum“ eða „ævintýraflokknum“ á þeim árum sem börn eru að læra muninn á skáldskap og veruleika. En það ekki ekki vafamál að rétt eins og aðrar ævintýraverur er Guð vissulega til – í höfðum þeirra sem á hann trúa.

Er heimilisfræðikennsla tímaskekkja?

Mér finnst vera tímaskekka að kenna börnum að steikja hamborgara í skólum. Heimilisfræði ætti að miða að því að gera heimilin betri. Það væri t.d. gagnlegt að kenna börnum eitthvað um fjármál.

Það tekur þá sem ekki skilja fjármálakerfið ótrúlega fá mistök að lenda í vítahring of hárrar greiðslubyrði með tilheyrandi vaxta- og innheimtukostaði. Það er engin hætta á því í nútímasamfélagi að börn læri ekki að verða sér úti um máltíð en margir læra aldrei að fara með peninga.