Að virða skoðanir

Opinions_89133c_3054273Út frá síðasta pistli mínum spannst dálítil umræða um mismunandi skoðanir og mér finnst sú umræða gefa tilefni til að varpa fram spurningu um það hvort mönnum beri alltaf, stundum eða aldrei siðferðileg skylda til að virða skoðanir annarra og ef ekki alltaf, hvernig eigum við þá að meta það hvaða skoðanir eru virðingarverðar?

Mér þætti einnig forvitnilegt að sjá hugmyndir þeirra sem þetta lesa, um það hvað felst í raun í því að virða skoðanir annarra. Get ég „virt“ skoðun sem stríðir gegn samvisku minni? Eða merkir það að virða skoðanir annarra í raun ekki annað en það að þær skipti okkur ekki nógu miklu máli til þess að við nennum að mótmæla þeim af sannfæringu? Hvaða hugmyndir hefur þú um þessa hluti?

 

Tvenns konar beyging nægir

Algengt er að fólk blandi saman þágufalli töluorðanna tveir og þrír.
Þessi orð eru til með tvennskonar beygingu: sumir segja tveimur og þremur í þágufalli, aðrir tveim og þrem. Hvorttveggja er jafnrétthátt en orðmyndirnar tvem og tvemur eru hinsvegar afleitir sambræðingar þessara tveggja orða.

Tvenns konar beyging er nógu flókin þótt við bætum ekki fleiri möguleikum við. Temjum okkur að segja tveim eða tveimur með greinilegu ei-i. Og kennum börnum okkar það líka.

Lægri flugfargjöld

Það er fagnaðarefni fyrir hinn almenna neytanda þegar flugfélög lækka fargjöld sín. Það er hins vegar hreint ekki eins skemmtilegt þegar lækkunin er tilkynnt með auglýsingum um “ódýrari fargjöld”.

Gjöld geta verið há eða lág og mörgum finnst þeir greiða of háa skatta. Gjöld geta hins vegar ekki verið ódýr, ekki frekar en skattarnir geta verið dýrir. Sömuleiðis getur vara annað hvort verið dýr eða á háu verði, verðið er hins vegar ekki dýrt. Fögnum lágum fargjöldum og ódýrum ferðum en ruglum þessu tvennu ekki saman.

Réttu upp hönd ef þú þarft aðstoð

Í síðasta pistli ræddi ég beygingu orðsins hönd en margir virðast rugla saman þolfalli þess og þágufalli. Þó er mun hroðalegri villa tengd orðinu hönd að ryðja sér til rúms en það er orðmyndin hend, sem er alls ekki til í íslensku. Skólabörn segjast oft “rétta upp hend” til að gefa kennara merki um að þau þurfi aðstoð og einhentur maður er sagður “bara með eina hend”.

Leiðréttum þá sem nota orðahroða af þessu tagi hvenær sem við heyrum –líka fullorðna. Kennarar eru sennilega í betri aðstöðu en flestir aðrir þar sem vinna þeirra felst að hluta til í því að sinna börnum með hendur á lofti. Ég ætlast beinlínis til þess af kennurum að þeir brýni fyrir nemendum að rétta upp hönd en ekki hend.

Hönd, um hönd, frá hendi, til handar

Beyging orðsins hönd er nokkuð á reiki og Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gefur upp tvennskonar beygingu.

Mér finnst „eðlilegasta beygingin“ vera: Hönd, um hönd, frá hendi, til handar en oft virðist tilviljun háð hvort fólk notar þolfall eða þágufall þessa orðs í daglegu tali. Þannig heyrir maður oft villur á borð við ég tók í hendina á honum, hvora hendina viltu? og mér er illt í höndinni. Mér finnst fara betur á því að segja ég tók í höndina á honum, hvora höndina viltu? Mér er illt í hendinni. 

Heimurinn væri betri ef ég fengi að ráða því hvernig fólk talar. Eða a.m.k. íslenskan.

 

Skrúfaðu fyrir vatnið

Það gerist æ oftar að ég heyri fólk tala um að slökkva á vatninu eða kveikja á vatninu.  Ég veit einnig dæmi þess að fólk slökkvi á bílnum. Ég minnist þess þó ekki að hafa heyrt neinn tala um að kveikja á bílnum.

Mér finnst þetta ákaflega einkennilega að orði komist. Ég kveiki og slekk ljós og ég kveiki og slekk á sjónvarpinu og þvottavélinni. Hins vegar skrúfa ég fyrir vatnsrennslið og drep ábílnum.

Í gær heyrði ég talað um að kveikja á krananum. Það er rökrétt ef maður ýtir á takka til þess að opna fyrir vatnsflæðið. Mér finnst það hljóma einkennilega en jú, ég fellst á að það að skrúfa feli alltaf í sér snúning.

Gerum ekki út af við önnur sagnorð

Sögnin að gera er afskaplega nytsamleg. Merking hennar er víð og sennilega yrði erfitt að koma saman nothæfum texta án hennar. Það er þó engin ástæða til þess að nota hana í stað annarra sagna sem lýsa betur því athæfi sem um ræðir hverju sinni.

Mér finnst alveg skelfilegt að heyra fólk tala um að gera mat í stað þess að elda mat og ennþá verra finnst mér þegar konur láta gera neglurnar á sér í stað þess að fara í handsnyrtingu. Lítil vinkona mín kom eitt sinn heim með skrifleg skilaboð frá kennaranum um að hún ætti að gera tiltekið verkefni fyrir þriðjudag. Fyrir miðvikudaginn átti hún svo að gera ljóð. Er furða þótt börn hafi slaka máltilfinningu þegar kennarinn lætur slíkan hroða frá sér skriflega?

Íslenskan á gnægð orða sem henta hverju tækifæri. Notum þau, ekki síst sagnirnar. Vinnum verkefni, sjóðum súpu, smyrjum samloku, yrkjum ljóð, byggjum hús, klippum og greiðum hár ogsnyrtum neglur.