Gerum ekki út af við önnur sagnorð

Sögnin að gera er afskaplega nytsamleg. Merking hennar er víð og sennilega yrði erfitt að koma saman nothæfum texta án hennar. Það er þó engin ástæða til þess að nota hana í stað annarra sagna sem lýsa betur því athæfi sem um ræðir hverju sinni.

Mér finnst alveg skelfilegt að heyra fólk tala um að gera mat í stað þess að elda mat og ennþá verra finnst mér þegar konur láta gera neglurnar á sér í stað þess að fara í handsnyrtingu. Lítil vinkona mín kom eitt sinn heim með skrifleg skilaboð frá kennaranum um að hún ætti að gera tiltekið verkefni fyrir þriðjudag. Fyrir miðvikudaginn átti hún svo að gera ljóð. Er furða þótt börn hafi slaka máltilfinningu þegar kennarinn lætur slíkan hroða frá sér skriflega?

Íslenskan á gnægð orða sem henta hverju tækifæri. Notum þau, ekki síst sagnirnar. Vinnum verkefni, sjóðum súpu, smyrjum samloku, yrkjum ljóð, byggjum hús, klippum og greiðum hár ogsnyrtum neglur.