Áherslur RÚV

Ég náði aðeins brotum úr annál rúv í gær og hélt hreinlega að ég hefði misst af upprifjun á göngunni með Ómari. Var að kíkja á annálinn aftur núna. Allir stóratburðir ársins eru inni, t.d. að herra Ísland hafi verið sviptur titlinum, fegurðardrottning misstigið sig og ný sveppategund fundist. Ekki orð um fjölmennustu mótmælagöngu Íslandssögunnar eða að upphafsmaður hennar hafi verið kosinn maður ársins (vegna þessarar óumræddu göngu) af hlustendum rúv fyrr um daginn.

Pottabrot

Jesúloddari opnar spítala að skipun heilags anda. Ríkið styrkir starfsemina miðað við 55 rúm þótt eingöngu sé 41 rúm á staðnum. Þannig gengur þetta þrjú ár í röð, án nokkurs eftirlits og án þess einu sinni að ríkið fái kvittun fyrir framlagi sínu. Skil ég þetta rétt?

Og ber að skilja þetta sem svo að á Norðurlandinu þyki það bara hið besta mál að frúin skjótist í Kaupfélagið á löggubílnum eða að krakkarnir fari á honum á rúntinn?

Um að gera

Ég man nú ekki orðrétt hvað Kjartan rakari sagði en það var eitthvað í þá veruna að Selfyssingar væru lítt uppteknir af ógnum Ölfussár, en þær rifjuðust vissulega upp við vatnavextina.
„Já, um að gera“ svaraði útvarpskonan.

What?

 

Lágvöruverslun

… hlýtur að vera búð sem selur lágar vörur. T.d. niðursuðuvörur og slátur og klósettpappír. Ekki hinsvegar háar vörur eins og bókahillur og fánastengur.

Skýr skilaboð

Þegar ég var fangavörður sá ég einu sinni nasagrip eins og sést í þessu skemmtilega myndbandi af frækilegri framgöngu dönsku lögreglunnar gegn hryðjusetu ungra róttæklinga.

Sá sem var tekinn í nefið á Litla Hrauni var mjög geðsjúkur maður. Ekki ofbeldismaður, en hann var með ranghugmyndir og svona leiðinda hávaði í honum.

Ælupest dagsins

Var það ekki í fyrra haust sem þættirnir um íslenska glaumgosann voru í sjónvarpinu? Einhver lúði frá Akureyri var sendur í klippingu og ljós og nokkrar dindilhosur slógust um hann í margar vikur, spyrjið mig ekki af hverju.

Allavega, ég man að þegar dömurnar voru beðnar að lýsa sjálfum sér, sögðu nokkrar þeirra „ég er skemmtileg“ eða jafnvel „ég er fyndin“. Aldrei fyrr né síðar hef ég kynnst fyndinni manneskju, sem þarf að segja frá því hvað hún sé fyndin til þess að fólk fatti það. Ég efast líka stórlega um að nokkur verulega falleg kona myndi senda einhverjum mynd af sér ásamt skilaboðunum, „ég er mjög falleg“. Það sést nefnilega alveg.

Fólk sem hefur umræður um viðkvæm málefni þannig „ég er ekki með fordóma en…“ er venjulega jafn fordómafullt og dindilhosurnar úr þessu hallærislega sjónvarpsþætti eru lítið fyndnar. Og sá sem segir „ég er sko ekki snobbaður“, en gefur um leið í skin að hann hafi reyndar mjög góðar ástæður til að vera snobbaður og heldur að það að snobba niður á við beri vott um snobbleysi, það er sko snobbhani af verstu sort.

Afsakið mig meðan ég æli.

Hreint ekki sýkn

Screenshot-from-2014-08-15-124625

Sýknudómur merkir að dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fullyrða svo óyggjandi sé, að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök.

Nú hefur héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að Hannes Hólmsteinn hafi vissulega gert nákvæmlega það sem Auður Laxness gefur honum að sök, þ.e. að brjóta gegn lögum um höfundarrétt. Að vísu kemst dómurinn einnig að þeirri niðurstöðu að þar sem Hólmsteinn hafi ekki skaðað neinn (nema þá heiður sinn) með tiltækinu og vegna þess að Auður frestaði því of lengi að höfða mál, sé ekkert hægt að gera við brotinu nema segja sveiattan við skúrkinn. Það merkir samt ekki að Hannes hafi verið sýknaður samkvæmt réttri merkingu orðsins.