Ég efast

Klæðskiptingar á steinöld??? Gaman þætti mér að sjá hvernig dragdrottningar steinaldar klæddu sig.

Ég verð að játa að ég skil nú ekki alveg hvernig Venus frá Willendorf færir sönnur á stóðlífi steinaldarmanna. Getur ekki alveg eins verið að hún hafi verið hugsuð sem forvörn gegn offitu?

Tjásur:

Halda áfram að lesa

Þú skalt ekki trúa þínum eigin augum

Fjölmiðlar beðnir að halda sig á mottunni og almenningur um að trúa þeim ekki.

Æjæ hvað það er nú sárt að almenningur skyldi trúa myndbandsupptökum af framgöngu lögreglunnar fyrir austan síðasta sumar. Uppáhaldsmyndskeiðið mitt er þegar yfirmaður í lögreglunni ræðst á ljósmyndara sjónvarpsins fyrir utan lögreglustöðina á Eglisstöðum. Fjárans ósvífnin hjá RÚV að vera að sýna það í sjónvarpi.

Ætli almenningur trúi ekki bara því sem honum finnst trúlegast.

Sinnaskipti

Mikið er ánægjulegt að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn skuli allt í einu leggja svona mikla áherslu á umhverfismálin og velferðarkerfið. Hér sannast hið augljósa, að ekkert er valdhöfum hollara en að verða dálítið óöruggir um stöðu sína, nema ef skyldi vera það að sjá fram á hroðalegustu flengingu í sögu flokksins.

Ógnin

Gæti ekki hugsast að Íranir væru til í að hætta þessu úranrugli þegar bæði Bandaríkjaríkamenn og Ísraelsmenn eru búnir að samþykkja að eyða öllum sínum gereyðingarvopnum og gangast undir alþjóðlegt eftirlit með vopnaeign sinni og hergagnaframleiðslu? Ég held satt að segja að þeir yrðu bara dauðfegnir.

Ef það er heimsfriður sem Bússa og félögum er svona umhugað um, þá hljóta þeir að bjóða upp á það einkar sanngjarna samkomulag. Mér hrís hugur við tilhugsuninni um að kjarorkuvopnaframleiðslu, hvort sem er í Íran eða annarsstaðar en það er ekki við því að búast að nokkur þjóð sé sátt við það að fá ekki tækifæri til að verja sig gegn stórveldi sem hefur hvað eftir annað valtað yfir aðrar þjóðir í nafni Gvuðs og mannréttinda og á í fórum sínum fleiri kjarnorkusprengjur en nokkur önnur þjóð.

Það er ekki siðleysi Írana sem ógnar veröldinni, heldur sértæk frekjuröskun yfirvalda í Bandaríkjunum.

Aktivistaflokk

Ég vildi sjá stjórnmálaflokk aktivista. Sá flokkur léti nægja að opna kosningaskrifstofu og kynna sig á fundum og með öðrum leiðum sem útheimta ekki fjárútlát en setti hinsvegar kosningasjóðinn í góð málefni. T.d. myndi slíkur flokkur ráða herskáan hóp sakamanna sem bíða efir að komast í afplánun til að grípa til róttækra aðgerða gegn stimpilgjöldum. Þá á ég ekki við að nokkrar hræður stilli sér upp fyrir framan alþingishúsið með kröfur á priki og tuldi einhver málamyndamótmæli niður í hálsmálið, heldur skýr skilaboð.

Það yrði mjög skemmtilegt að ef öll fórnarlömb stimpilgjaldaskrímslisins, eða þótt ekki væru nema lántakendur úr einu hverfi, tækju sig saman um að ráðast inn á þing, stimpla 666 á ennið á hverjum einasta alþingismanni og rukka þá fyrir. Það mun ekki gerast. Hinsvegar væri hægt að ráða til þess menn með skuggalega nútíð og það yrði betri auglýsing fyrir flokkinn en nokkurt glanstímarit. Um að gera að virkja mannauðinn í landinu og glæpamenn þurfa ekkert síður á því að halda en aðrir að finna að þeir geri gagn.

Atkvæði aldrei deyr

Atkvæði deyr aldrei. Ekki heldur þótt flokkurinn sem maður kýs komist ekki í ríkisstjórn eða nái jafnvel ekki inn manni. Atkvæði felur í sér skilaboð. Með því að kjósa annan lista an þann sem maður vildi helst, bara af því maður telur að uppáhaldsflokkurinn eigi ekki séns, gefur maður röng skilaboð. Ég er ekki búin að sjá stefnuskrá frá Íslandsflokknum eða spjalla við neinn forystumanna hans en ef mér líst betur á Ómar og félaga en VG, mun ég sannarlega haga atkvæði mínu samkvæmt því.