Smáábending

Ekkert samfélag hefur nokkru sinni þrifist án lista, fræða og afþreyingar. Hinsvegar hafa fjölmörg samfélög þrifist án stóriðju og offramleiðslu. Sennilega er eitt gott hláturskast líklegra til að auka lífsgæði fólks en heill farmur af hamingju í dós.

Hér eru tilmæli til þeirra sem vilja leggja niður opinber fjárframlög til menningarinnar á þeirri forsendu að það sé ekki hægt að éta hana: Hoppaðu upp í rassgatið á þér. Þegar þú ert búinn að éta eins og eitt klíó af áli.

Þulurnar

Hvað finnst þér um þá ákvörðun að leggja niður starf þula hjá rúv? Er rökrétt á niðurskurðartímum að losa sig við starfsfólk sem vel er hægt að vera án eða er óhóflega vegið að konum með þessari ákvörðun?

Umræður hér:

https://www.facebook.com/notes/eva-hauksdottir/ertu-sáttur-við-að-reka-þulurnar/264244078659/

Hvað er eiginlega að Elling?

Af hverju taka menn allaf það sem er fullkomið eins og það er og gera það aftur? Er ekki eitthvað stórkostlega athugavert við hugmyndaflug þeirra sem geta ekki bara gert eitthvað nýtt? Ef út í það er farið er svosem ekkert nýtt undir sólinni, við byggjum alltaf á því sem við þekkjum en fjandinn hafi það, hvað er eiginlega að upprunalegu útgáfunni?

mbl.is Sigurjón gerir mynd með Steve Carell

Lýðræðið er pulsa

Fyrir nokkrum vikum setti listamaður upp á Háskólatorgi verk sem lýsir eðli þess lýðræðis sem við búum við.Þetta er myndband sem sýnir fólk að borða pylsur. Þú mátt velja hvaða meðlæti þú færð með pylsunni þinni af því að þú ert svo rosalega frjáls. Pylsan/pulsan er samt sem áður það eina sem er í boði. Þú horfir á pylsugerð og fólk borða pylsur svo lengi að þú kemst að raun um að hvorugt sé sérlega geðslegt, hvað þá skemmtilegt. Halda áfram að lesa

Arnaldur er ofmetinn

Ég held að Arnaldur Indriðason hljóti að vera ofmetnasti rithöfundur Íslandssögunnar. Mér finnst, þrátt fyrir andúð mína á þeim bókum hans sem ég hef þegar lesið, ótrúlegt að verulegar vondar bækur vinni til verðlauna í fjölþjóðlegri samkeppni svo ég ákvað að gefa Grafarþögn séns. Fyrsti kaflinn slapp nokkurn veginn en síðan hefur höfundur hvað eftir annað komið upp um hæfileikaleysi sitt sem rithöfundar. Nú er ég komin á bls 41 og það er fyrst hér sem bullið gengur fram af mér.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur, sem þrátt fyrir áratuga starf við að upplýsa morð og myrkraverk hefur ekki varphænuskilning á því málfari, siðareglum og hugsunarhætti sem einkennir undirheima Reykjavíkur, eltir fremur ógæfulegan mannvesaling út af Kaffi Austustræti og nær að hrinda honum í götuna. Og hér kemur svo gullkorn úr þessari stórmerkilegu Glerlyklissögu:

Tvö pilluglös hrundu úr vösum hans og Erlendur tók þau upp. Sýndist það vera e-töflur.

Af hverju gefa svona fáir góðir höfundar út glæpasögur? Kannski af því að góðir höfundar gera þá kröfu til sjálfra sín að þeir viti EITTHVAÐ um umfjöllunarefnið? Arnaldur virðist allavega vera alveg laus við að hafa vit á því sem hann skrifar um.

Kannski ætti mbl.is að endurskoða stefnu sína?

Ég varð mjög ánægð þegar mbl.is skrúfaði fyrir þann möguleika að beintengja blogg við fréttir af slysum, kynferðsglæpum og öðru mjög viðkvæmu og persónulegu. En getur einhver sagt mér hversvegna er ekki hægt að tengja færslu við þessa frétt? Flokkast það sem viðkvæmt og persónulegt mál ef einhver bullan gengur um og ógnar fólki?

Annað sem mér finnst gagnrýnivert hjá mbl.is. Nú er ekki lengur hægt að blogga nafnlaust. Mér finnst það slæmt af því að í málefnalegri umræðu á persónan á bak við orðin ekki að hafa of mikil áhrif á það hvernig umræðan þróast en ég skil það, vegna þess að of margir nýta sér nafnleysið til að sverta aðra og jafnvel ógna saklaustu fólki.  Það skýtur því skökku við að eftir sem áður sé hægt að beintengja hvaða bull sem er við fréttir, með því að senda sníkjubloggfærslur inn á atugasemdakerfi annarra, nafnlaust. Veit einhver hvaða rök eru á bak við það fyrirkomulag?