Ríkisstjórnin tilnefnd til Steingrímunnar

SteingrimanÞjóðaratkvæðagreiðslur eru skref í átt að lýðræði. Það er þó til lítils að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu ef ekkert er gert með niðurstöðu hennar.

Helstu rökin gegn þjóðaratkvæðagreiðslum eru þau að almúganum sé ekki treystandi fyrir mikilvægum ákvörðunum. Við þurfum mannvitsbrekkurnar 63 sem sitja á Alþingi til þess að passa upp á okkur. Ef málum er skotið til þjóðarinnar gætu alkóhólistar, glæpamenn og kjánar haft áhrif á niðurstöðu, ólíkt því sem gerist í þinginu.

Nú hefur mbl.is upplýst okkur um að stjórnarflokkarnir séu hættir við að koma stjórnarskrármálinu í gegnum þingið. Í fyrstu hélt ég að þetta væri bara moggalygi en stjórnarliðar þegja þunnu hljóði og ég held ekki að skýringin sé sú að þeir séu allir uppteknir við að baka vatnsdeigsbollur.

Árið 2011 sæmdi vefritið Gagnauga Ögmund Jónasson viðsnúningsverðlaununum Steingrímunni. Tilefnið var sá gagngeri viðsnúningur Ögmundar í afstöðu til alræðishyggju sem birtist í skyndilegri hrifningu hans á þeirri hugmynd að veita lögreglu heimildir til að njósa um fólk sem ekki er grunað um að hafa framið glæp af neinu tagi.

Ég tilnefni hér með ríkisstjórnina til Steingrímunnar 2013 fyrir viðsnúning sinn í afstöðu til lýðræðis.

Athugið að þetta snýst ekki bara um stjórnarskrána heldur ekki síður lýðræðismál. Þeir sem ekki eru hrifnir af stjórnarskrárfrumvarpinu fagna kannski í dag en þeir sem styðja valdníðslu í þessu máli gætu skipt um skoðun næst þegar kemur til álita að skjóta máli til þjóðarinnar.


Þórarinn haki hannaði Steingrímuna

Konan á heilsugæslugæslustöðinni

Ég átti erindi á heilsugæslustöðina í gær. Mér var sagt að það yrði dálítil bið þar til ég kæmist að, svo ég fann mér tímarit til að skoða. Ég var ekki fyrr sest en eldri kona sem sat þar bryddaði upp á samræðum. Hún sagði mér alla sína sjúkdómasögu, söguna af því þegar gleraugunum hennar var stolið og ýmislegt af  fjölskyldu sinni og vinum. Ég brosti kurteislega og í hvert sinn sem hún þagnaði opnaði ég blaðið og vonaði að hún áttaði sig á að ég vildi frekar lesa. Hún hélt bara áfram að tala og ég kunni ekki við annað en að sýna því áhuga.

Loks kom læknirinn fram og kallaði á mig. Konan var þannig staðsett að hún sást ekki frá dyrunum. Þegar ég stóð upp bað hún mig að nefna það ekki við lækninn að hún væri þarna því þá yrði henni hent út. „Ég kem hingað til að spjalla við fólk þegar mér leiðist en þau segja að ég megi ekki koma hingað nema panta tíma fyrst,“ sagði hún.

Af róttækni bernsku minnar

Í leit minni að felgulykli festist ég stutta stund í nýársboði hjá systur minni. Var þar meðal annarra stödd móðir mín sem rifjaði upp bréf mitt til Elíasar sáluga Bjarnasonar.

Umrætt bréf er fyrsta dæmið um þá aðferð sem ég hef mest notað til þess að angra yfirvaldið. Mér þótti reikningur óbærilega leiðinleg námsgrein og átti fastlega von á  að deyja úr leiðindum fyrir aldur fram ef ekkert yrði að gert. Ég taldi víst að Elías Bjarnason, fyrrum yfirkennari, væri rót allar reikningskennslu. Án hinna ömurlegu bóka hans yrði grunnskólinn frjáls frá þessháttar leiðindum. Halda áfram að lesa

Af virðingu stofnana

Screenshot (136)Alþingi er virðuleg stofnun. Það er því sorglegt til þess að hugsa að þingmenn geri sig seka um að vanvirða þessa háborg lýðræðisins með því að klæðast að hætti óbreyttrar alþýðunnar. Þessháttar hegðun hefur t.d. Árni Johnsen gerst sekur um. Hugsið ykkur bara hvernig það væri með virðingu þingsins ef allir þingmenn hegðuðu sér eins og Árni. Klæddust eins og einhverjir Vestmannaeyingar í þingsal.

Halda áfram að lesa

Mitt fyrsta ljóð

Ég var nú svo lítil að ég man ekkert eftir því sjálf en móðir mín sagði mér einhverntíma sögu af mínum fyrstu skáldskapartilburðum. Ég var víst bara rétt orðin talandi og ekki búin að læra rím og stuðla.

Ég sat á rauða gólfteppinu í Efstalandinu og söng:

Afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
Amma stóð við gluggann og horfði út
„Ætlar karlhelvítið ekkert að fara að koma?
Ja sá sklasko heyra það þegar hann kemur.“

Ég sel þessa sögu ekki dýrara en ég keypti hana og þess ber að geta að móðir mín er ennþá lygnari en ég sjálf. Ég minnist þess þó að hafa sagt sklasko fram yfir fimm ára aldur.