Ævintýr hins ósagða

Löngum hafa nöfn mín
hrakist fyrir vindum
og hvítur stormurinn felur í sér
fyrirheit um frekari sviptingar.

Án sektar
án sakleysis
hef ég gefið honum eitt þeirra á vald,
hrifist með hvini hans
að endimörkum frumskógarins
þar sem höggormurinn hringar sig
utan um sólina
og barn hefur stigið sín fyrstu skref
út á brúna
sem skilur veröld hugsunar og tungu.

Ástkonan

Er klæðist mánagyðjan möttli skýja
og myrkrið drýpur hljótt af birkigreinum
og skuggaverur skjótast undan steinum
skæruárar óttans dyra knýja.

Þá napur gjóstur nístir inn að beinum
og náköld skelfing grafarhúmsins hvískrar
og ryðgað hliðið hriktir, marrar, ískrar
með harmaþrungnum sorgarinnar kveinum.

Þar moldarinnar yfir opnu sári
ein hún grætur einu köldu tári
sem falli hrím á fylgju elskhugans

en engin blóm hún leggur á hans leiði
Í leynd svo engan veruleikinn meiði
vill hún í myrkri vitja grafar hans.

 

 

Andlit barns

Kannski veistu aldrei hvar þú stendur
né hver ég er.
Engill er ég ekki af himnum sendur
en er þó hér.
Og fjandinn er af félögunum kenndur
því fer sem fer.

Sérhver er með sínu marki brenndur
það sagt er mér.
Fjall er ég og fagrugrænar lendur
og flæðisker.
Andlit hef ég barns en öldungs hendur
og auga á þér.

Óður til Samfylkingarinnar

Stóriðjulauslátir, gandreiðarstígvélabrögðóttir fyrirtækisfærissinnar
gengu í hring út frá innkomu utan um afkomu.
Veraldarauðkífið leit upp og lyfti hægindastólpípuhattinum;
„frúin er framboðleg“.

Afskiptaráðandinn tilkynnti að almúgnum vandlátnum
yfirtöku á skaflajárntjaldsúlunni úr rökþrotabúinu.
Tvínegldi tágleiður
öfugsnúinn sætabrauðfótabúnað gangsskiptagæðingsins.
Hleypti á skeið og stökk yfir vegtálma
vammlausnarsteingerðarbeiðenda.

Umkomulausholda of- eða van- hugsjónleikstjórastólræðan
stefndi að misgengisfellingu
á vel kýldri vömb afturgönguHrólfs
með afgangi af uppgangi inni í Ráðhúsi.
Dýr eru óráð í góðæri, góð ráð í óráði,
vandræði á vergangi.

Afturfótafiðrildi
flögrandi í áttina að útgangi.

—  og smýgur

Mjásupjása mjúkum þófum aftur,
smogin undir augnlokin
og sveiflar rófu
ó Guð, þinn náðarkraftur
veri vörn heilakvörn.

Undarlegt hve árans fjárans kvikindið fer hljótt.
Eins og ljósið langt og mjótt
hún smýgur
undir skeljarinnvolsið
og mígur
utan í heiladingulinn
arma harmavingulinn, minn, minn.
Sama, gamla, valda, kvalda staðinn til að merkja
svo mig verki.

Og bogalogaægiflogaaugun toga lengi
í sprengiþanda tengistrengi
drengs sem aldrei fengist til að hengja
sínar eigin skæðu mæðulæðuslæður
út á þvottasnúru.

Landnemaljóð

Í leit minni að heimkynnum
hef ég sleppt bæði dúfum og hröfnum
sem alltaf sneru aftur
tómnefjuð
og enn rekur bát minn fyrir straumum.

Ég játa að ég treysti hröfnum betur en dúfum,
kann betur við ís og sand en ólívugreinar
og enginn flóttamaður er ég
heldur landnemi.

Ekki veit ég
hvort hrafnar sveima
yfir fjallinu hvíta í austrinu
en hitt hef ég séð;
atað dúfnasaur
er torg hins himneska friðar.

Sprungur

Hversu lengi hef ég setið og starað á vegginn í stofunni? Ég veit það upp á mínútu en þær mínútur hafa liðið hægar en mínútur gera almennt. Það er svosem ekki mikið að sjá á þessum vegg, nema þá sprunguna eftir jarðskjálftann í fyrra. Hún hefur stækkað og gliðnað og nýjar sprungur og grynnri liggja út frá henni. Breiðast líkt örtstækkandi kógulóarvef frá miðjunni, yfir vegginn allan, allt niður að gólfi og uppundir loft. Merkilegt að veggurinn skyldi fyrst springa í miðjunni. Rétt eins himininn hafi þrýst á móti þegar jörðin tók að titra undir fótum mínum. Hversu langt ætli sé þar til veggurinn hreinlega gefur sig og hrynur yfir stofuna mína? Halda áfram að lesa