Ég er náttúrulega svo skapstór…

Mér varð frekar óglatt í morgun þegar ég heyrði unga konu lýsa sinni eigin hyperfrekjulegu framkomu gagnvart einhverri ritaraafmán á læknastofu með orðbragði sem ekki er hafandi eftir. Manneskja með snefil af sjálfsvirðingu hefði beðist afsökunar á dónaskapnum og dauðskammast sín fyrir upphlaupið en þessi unga kona útskýrði fyrir vinkonu sinni með greinilegu stolti að hún væri „náttúrulega svo skapstór“. Halda áfram að lesa

Smá

Miriam er að fara út á morgun, til að heimsækja mömmu sína og hitta Hauk (sem er líklega kominn til tilvonandi tengdamóður sinnar nú þegar).

Við borðuðum á Næstu grösum í hádeginu.

Geisp

Svo gott að fá heilan dag til að slappa af, hanga á netinu, blogga, ráða sunnudagskrossgátuna, smyrja 5 tegundum af kremi á kroppinn á sér, hitta vini, fara á veitingahús, lesa. Ég ætlaði eiginlega að yrkja eitt kvæði í dag en kom mér ekki í gang. Það hefur líklega verið of metnaðarfullt markmið. Ég hef ekki gert neitt af viti í allan dag nema fara í ræktina og samt finnst mér ég þurfa annan frídag til að komast yfir allt það aðgerðaleysi sem mig langar að fremja.

Ég er að veslast upp af tilgangsleysi. Orðin hálfleið á búðinni minni, ekkert áhugavert í gangi og allt útlit fyrir að líf mitt allt verði spólandi í sama hjólfarinu í marga mánuði enn nema ég geri eitthvað róttækt. Ég verð að komast til Palestínu. Ég er búin að ræða það við Mammon og ef hann tekur ekki upp á einhverjum kenjum ætti ég að ráða við það í haust.

Með 133ja ára langan fattara?

Mig langaði í þessa bók en Bóksali frá 1874 átti bara sýniseintakið eftir og það var snjáðara en mínar bækur eftir þriðja lestur. Ég spurði hvort ég fengi ekki sýniseintakið með afslætti og Bóksali frá 1874, líklega ekki deginum eldri en 18 ára, tjáði mér að þetta væri ekki sýniseintak, sýniseintök væru merkt með sérstökum miða. Ég benti drengnum á að eintakið hefði legið frammi til handfjötlunar og bæri þess mjög greinileg merki að ófáir viðskiptavinir hefðu flett því og að hvað sem öllum merkingum liði, þá héti slík bók á mannamáli sýniseintak. Halda áfram að lesa

Draumfarir

Ég er búin að ákveða að læra að drekka viský, sagði vinkona mín sem er svo léleg drykkjukona að þegar hún fékk einu sinni skemmt rauðvín, hélt hún að það væri bara hún sem hefði engan smekk.  Halda áfram að lesa

Fertugri en í fyrra

Paul Simon ætlar að halda upp á afmælið mitt í sumar. Ég klikkaði alveg á því að fagna fertugsafmælinu mínu í fyrrasumar, fannst það fyrirstaða að ég var ekki búin að fá íbúðina afhenta og börnin mín voru á ferðalögum. Ég er að hugsa um að bæta það bara upp í sumar. Er annars nokkuð of seint að fagna því að maður sé fertugur þótt maður sé einu ári betur? Er ég ekki bara ennþá fertugari fyrir vikið?

Svo má náttúrulega deila um það hvort ég er í rauninni almennilega fertug. Ég hélt alltaf að fertugar konur hlytu óhjákvæmilega að eiga Kitchen Aid hrærivél og tvo útsaumaðaða rococcostóla en ég á hvorugt. Og plís ekki gefa mér neitt sem gæti hugsanlega flokkast sem rocooco neitt. Mig langar hinsvegar í hrærivél og það hlýtur að vera nógu fertugt.

Ég er svosem ekki ákveðin í því að halda partý en Paul Simon verður allavega heiðraður með nærveru minni fyrst hann er að koma.