Mig langaði í þessa bók en Bóksali frá 1874 átti bara sýniseintakið eftir og það var snjáðara en mínar bækur eftir þriðja lestur. Ég spurði hvort ég fengi ekki sýniseintakið með afslætti og Bóksali frá 1874, líklega ekki deginum eldri en 18 ára, tjáði mér að þetta væri ekki sýniseintak, sýniseintök væru merkt með sérstökum miða. Ég benti drengnum á að eintakið hefði legið frammi til handfjötlunar og bæri þess mjög greinileg merki að ófáir viðskiptavinir hefðu flett því og að hvað sem öllum merkingum liði, þá héti slík bók á mannamáli sýniseintak.
Drengurinn bað mig að bíða á meðan hann leitaði samþykkis fyrir afslætti. Kom aftur með þau skilaboð að verslunin gæfi aldrei afslátt af erlendum sýniseintökum. Ég þakkaði upplýsingarnar og fór bókarlaus heim.
Af þessari sögu má læra að það getur tekið bóksala meira en 133 ár að átta sig á því að sá sem ætlar að eyða 1590 krónum í ómerkilega pappírskilju sem kostar 746 krónur á Amazon, vill ekki fá hana kámuga og með uppbrettum hornum, nema hann fái um leið táknræna viðurkenningu, upp á kannski 150-200 krónur á því að eintakið sé ekki 1590 króna virði.
Einnig mætti túlka þessa sögu á þann veg að ég væri hugsanlega tilbúin til að selja stolt mitt á 200 kall.
——————————-
það væri bara bjánalegt að borga fullt verð fyrir lúið eintak af bók…ég hefði gert það sama í þínum sporum.
Posted by: baun | 6.04.2008 | 17:02:54
— — —
Ég ætlaði að reyna að skila bók um daginn, hún var í nákvæmlega sama ásigkomulagi og ég keypti hana, en það var örlítið hak í kápuna á einum stað. Ólesin, auðvitað. Fékk ekki að skila henni, út af þessu haki, þó ég hefði keypt hana þannig.
Posted by: hildigunnur | 6.04.2008 | 18:19:38
— — —
Ég hlýt þá að vera með fimmhundruðárafattara því ég skil ekki ártölin í færslunni! 🙂
Posted by: Unnur María | 7.04.2008 | 10:36:36
— — —
Bóksalinn auglýsir sig út á það að hafa verið bóksali frá árinu 1874. Það eru semsagt rúm 133 ár sem hann hefur haft til að átta sig á því í hvaða ástandi bók þarf að vera til að sé viðeigandi að bjóða viðskiptavinum upp á að greiða fullt verð fyrir hana.
Posted by: Eva | 7.04.2008 | 11:02:33
— — —
Ok, nú skil ég! 🙂
Þegar ég vann við bóksölu var þetta annars standard, að gefa afslátt væri eintakið laskað sama hvort bækurnar voru íslenskar eða útlenskar. Enda hefur búðin alltaf efni á að gefa 10% afslátt til að hafa kúnnann ánægðan.
Posted by: Unnur María | 7.04.2008 | 15:08:25