Spádómar Pysjunnar

Í hvert sinn sem ég hef rætt áform mín um að fara út í fyrirtækjarekstur hafa vinir og vandamenn látið eins og ég sé að bjóða mig fram sem tilraunadýr fyrir kókaínframleiðendur. Alveg þar til ég sagði þeim að ég væri að opna nornabúð, þá allt í einu urðu allir svona líka jákvæðir og tilbúnir til að peppa mig upp á allan máta.

Nema sonur minn Pysjan. Hann er búinn að spá mér meiri hrakförum og eymd en allir hinir hafa gert samanlagt síðustu 10 árin. Hann kemur heim úr sveitinni á morgun. Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum líst á.

Dram

Dramatíkin hófst handa við það strax í gærkvöld að reyna að eyðileggja helgina og hefur haldið þeim tilraunum áfram í dag. Greyið. Eins og lítill kjölturakki sem getur gjammað á kött út um gluggann en þorir ekki að reka upp bofs þegar hún stendur frammi fyrir alvöru tík. Mér finnst satt að segja hálf neyðarlegt að sjá hana reyna að vera merkilega með sig þegar staðreyndin er sú að enginn tekur fýlunni í henni alvarlega.

Ófyrirsjáanlegt vandamál

Sem spákonur miklar vorum við búnar að sjá fyrir ýmis vandamál. Það hafði þó ekki hvarflað að okkur að skuldafælurnar myndu seljast upp strax á öðrum degi. Að vísu erum við ákaflega hamingjusamar yfir því „vandamáli“ en í augnablikinu veit ég ekki alveg hvernig ég á að búa til tíma til að sinna bókhaldi Uppfinningamannsins og öðrum verkefnum sem ég hef tekið að mér. Halda áfram að lesa

Fávitafælan

Nánast allir sem hafa komið í Nornabúðina hafa kolfallið fyrir Fávitafælunni. Nema bróðir minn Mafían. Ég held að honum finnist dálítið ljótt af mér að hafa útbúið þennan litla, einfalda, neytendavæna galdur.