Maður má smakka eitt

Í búðinni var aðeins einn viðskiptavinur fyrir utan mig. Hann leit út fyrir að vera um sextugt og lifa á saltketi og rjóma. Ég hefði sennilega ekkert tekið eftir honum nema vegna þess að hann stóð við sælgætisbarinn og gúllaði í sig.

Ég talaði ekki við hann, enda ekki í mínum verkahring að upplýsa aðra kúnna um hefðir í viðskiptaháttum en kannski hefur mér orðið það á að sýna svipbrigði sem lýstu undrun. Allavega vatt hann sér að mér og sagði með fullan gúlinn af hlaupi og brjóstsykri; ég smakka nú alltaf á þessu áður en ég kaupi það, maður verður að vita hvað maður er að kaupa.
-Jáhá, sagði ég vantrúuð.
Maður má það alveg. Maður má alveg smakka eitt, sagði maðurinn og tróð upp í sig lakkrís.
-Já er það virkilega? Ég vissi það ekki, sagði ég.

Ég hafði eiginlega verið að hugsa um að kaupa eitthvað en hætti við. Hann notaði ekki áhöldin og þótt fólk sé sjaldan eitrað var einhvernveginn eins og mig langaði ekki í neitt lengur. Ekki heldur þótt ég hefði þarna fengið formlegt leyfi til að smakka eitt, þá væntanlega eitt af hverri tegund.

Fjölmiðlar eru vinir okkar

Fjölmiðlar eru góðir við okkur.

Fréttablaðið er m.a.s. búið að gefa okkur vikulega smáauglýsingu alveg án þess að við höfum farið fram á það. Að vísu báðum við um þessa sömu auglýsingu daginn fyrir síðustu tunglfyllingu enda talað um tilboð á spilum ofl. „í tilefni af fullu tungli“.
Auglýsendur Fréttablaðsins virðast telja okkur nógu göldróttar til að stjórna tunglhringnum, allavega hafa þeir auglýst fullt tungl á hverjum þriðjudegi síðan.

Í gær kom kona sem hafði gert sér ferð ofan úr Borgarnesi til að kaupa Mantegna spilin (sem ég held að fáist hvergi annarsstaðar á landinu)með 20% afslætti, svo ég verð að játa að mér finnst þetta hálfgerður bjarnargreiði hjá Fréttablaðinu.

Hressmann

Undanfarið hef ég verið svo rotuð á morgnana að ég hef ekki komið mér fram úr fyrr en upp úr kl 7. Þótt ég sé morgunhýr að eðlisfari verð ég að viðurkenna að ofþreyta eyðileggur alveg þann taumlausa fögnuð sem venjulega fylgir því að hefja hringrásina vinna-þvottur-önnur vinna-Bónus-matseld, meiri vinna. Það er sem ég segi; svefnóreiða kann ekki góðri lukku að stýra til lengdar og hefur undarlegustu atvik í för með sér. Halda áfram að lesa

Orkusteinar

-Rosalega er góður kraftur í þessum steinum, maður finnur alveg strauminn frá þeim, sagði konan og kreisti jaspis svo hnúarnir hvítnuðu.
-Hvernig straum? spurði barnið.
-Þetta er orkusteinn. Finndu, finnurðu ekki kraftinn frá honum? svaraði móðirin og rétti barninu steininn.
Barnið horfði forviða á móður sína og mér fannst þetta satt að segja komið út í rugl. Halda áfram að lesa