Ekki er allt sem sýnist

Ef einhver væri nógu leiðinlegur til að gera heimildamynd um eina fríhelgi í lífi mínu, yrði auðvelt að draga þá ályktun af myndinni að Eva sé í eðli sínu mikil skúringakona í ákafri karlmannsleit.

Þetta er þriðja föstudagskvöldið í röð sem ég nota til þess að þrífa íbúðina.
Það segir meira um sjónvarpsdagskrána en dugnað minn og meira um félagslyndi mitt en hreinlæti.

Örvæntingafull leit mín að stuttum og ópersónulegum kynnum af iðnaðarmanni segir svo aftur meira um ástandið á pípulögnum og rafkerfi híbýla minna en ástsýki mína.

Væna konu – hver hlýtur hana?

Konan mín er fullkomin.

Þegar ég kom í vinnuna var hún búin að gera búðina fullkomna og það sem meira er, hún var búin að laga bloggið mitt, svo nú get ég skrifað ógnalangar færslur. Svo langar að enginn nennir að lesa þær nema ég sjálf. Hún er fullkomin og mun ég leggja bölvun á hvern þann karlmann sem lítur hana girndarauga. Ég ætla að eiga hana sjálf. Og hana nú.

Ian á leiðinni

Ég keypti tvo miða á tónleikana með Iani Andersyni.

Ég þekki reyndar engan sem mér vitanlega hlustar á Jethro Tull, (nema einn sem hlustar á alla almennilega tónlist og fer á alla tónleika og er örugglega löngu búinn að tryggja sér miða) en ef aðdáandi leynist í kunningjahópnum er viðkomandi beðinn að gefa sig fram til fylgdar á tónleikana.

Bilun?

Ég hef áhyggjur af því hvað ég hef miklar áhyggjur af geðheilsu minni. Mér finnst það bara dálítið sjúklegt.

Sjálfsvirðing beðmálalufsunnar

Í gær sá ég sjónvarpsþátt um lufsu sem stendur uppi húsnæðislaus, sökum eigin afglapa. Vill kaupa íbúð en reynist ekki lánshæf (vegna langvarandi verslunarbrjálæðis). Engin leiguíbúð sem hún ræður við er nógu fín fyrir hana. Hún borðar á veitingastöðum og notar leigubíla, því skórnir hennar eru ekki hannaðir til göngu. Hún fær nett dramakast yfir því að geta ekki keypt fleiri skópör til viðbótar þessum 100 sem hún á fyrir. Hún leitar „ráða“ hjá manni sem er margbúinn að fara illa með hana. Hún tekur geðbólguna út á vinkonu sinni sem bauðst ekki til þess að leysa málin fyrir hana og klikkir út með því að þiggja af henni lán, hring sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir vinkonuna. Halda áfram að lesa

Óhreinu börnin hennar Evu

Andlit byltingarinnar er innblásinn af fítonskrafti eftir uppákomuna á miðvikudaginn. Um síðustu helgi leið honum svo illa í pólitíkinni að ég hélt jafnvel að frekari aðgerðir yrðu saltaðar í bili. Ég veit ekki alveg hvað gerðist en hann beit einhvernveginn í sig að sinnuleysi og óvirkni fullorðna fólksins væri bara sjálfskapað víti en ekki örlög.

Pysjan fer austur fyrir fjall í dag til að sækja liðsauka. Ég játa á mig talsverðan kvíða yfir þátttöku hans. Þótt hann hafi alla tíð verið 10 sinnum þrjóskari en bróðir hans, og þar með ágætt efni í aktívista, finnst mér hann alltaf vera hann litli minn.