Netsíðan komin í loftið

Fyrsta Bakkusarblót Nornabúðarinnar fór fram á laugardagskvöld og tókst vel að öðru leyti en því að ég gekk fulldjarflega fram í dýrkun minni á Bakkusi og tók út verðskuldaða refsingu á sunnudaginn. Var öllu líkari fórnarlambi vampýru en norn í kaffiboðinu á sunnudaginn en tókst samt að skúra yfir salinn, fjarlægja bjórflöskur og skella á tertubotna áður en fólkið kom.

Hof Mammons hefur því fengið formlega vígslu og netsíðan okkar hin fullkomna er komin í loftið.

Ég verð í þættinum Innlit-útlit, þriðjudagskvöldið 18. apríl. Heppileg tímasetning svona rétt að afloknu páskafríi.

Brill

Jæja, þá fer nú að styttast í vígsluna á „ráðstefnusalnum“ eða „Hofi Mammons“ eins og við erum farnar að kalla hann. Bakkusarblót á laugardagskvöld og formleg víglsa Mammonsaltaris og vefsíðu fyrir fjölskyldur og velunnara á sunnudag.

Innlit-útlit á leiðinni til okkar. Það er brilljant.

Sonur minn er leikskáld

Byltingin hreppti þriðja sætið í örleikritakeppninni. Fjári fínt hjá honum og það í fyrstu tilraun til leikritunar. Ekki hefur neitt eftir mig ratað á leiksvið Þjóðleikhússins, eða nokkurt leiksvið ef út í það er farið.

Ég er óðum að læra trésmíðar. Niðurstaða dagsins er þessi; margar flísar í lófum valda erfileikum við verkfærabeitingu.

Dýr myndi Smiðliði allur

Um það leyti sem við opnuðum búðina, mundaði spúsa mín borvélina og smeið mér af snilli sinni vegg einn fagran. Það var frumraun hennar á sviði trésmíða og tók hana rúma tvo tíma. Ég bætti svo um betur og varði tæpri klukkustund í að sparsla, mála og snurfusa til að fullkomna verkið. Stendur þessi veggur enn keikur og vekur óskipta aðdáun hvers sem á hann lítur. Halda áfram að lesa

Ekki góður galdur

Fór í morgunkaffi í vélsmiðjunni til að sverma fyrir veggjasmið. Eigandinn gaf lítið út á galdrafærni mína. Að vísu sótti maður um vinnu á mánudaginn en það reyndist vera vesælingur sem ekkert er hægt að nota. Ég verð líklega að útvega mér nautsblóð ef á að vera hægt að loka inn á klósettið fyrir opnunarteitið.

Við erum að fá múg og margmenni í heimsókn á morgun og þá verður salurinn að vera orðinn íveruhæfur. Í augnablikinu virðist það fremur fjarstæðukennt.