Innlitsþátturinn

Ég verð í þættinum Innlit-útlit kl 21 í kvöld.

Ég hef að vísu áhyggjur af því að áherslan verði meiri á mitt sauðvenjulega heimili en búðina mína, sýnist það svona á auglýsingunni. Ef það fer svo verð ég frekar spæld. Allt í lagi að hórast í einhverjum sjónvarpsþætti ef það verður til þess að stórir hópar og margir koma hingað í kaffi og kynningu. Að öðru leyti hef ég ekki áhuga á að kynna mig sem innanhússarkitekt eða tískuspengil.

—–

Uppfært: Innlitsþátturinn er kominn á vefinn. Ég er rétt framan við miðju.

Allt bókfært í kerfinu

Ég hef óbeit á stöðumælasektum, enda er það argasta guðlast gagnvart honum Mammoni mínum að kalla yfir sig slíkan ófögnuð. Þó gerðist ég nýverið sek um slíkt guðlast og hef nú, auk friðþægingarfórnar til Mammons, greitt sekt mína innheimtumönnum bílastæðasjóðs.

Sektina borgaði ég í heimabankanum en sá þá mér til furðu að dagsetningin á greiðsluseðlinum stemmdi ekki við dagsetninguna á handskrifaða miðanum. Halda áfram að lesa

Tungl

Magnaðasta tungl ársins.

Fórum út og horfðum á það gyllt og gríðarstórt, snerta sjóndeildarhringinn og hoppa upp á himininn aftur.

Fyrr í dag fór ég með Byltinguna upp í Heiðmörk svo hann gæt bætt fyrir galdurinn sem verðir laganna klúðruðu fyrir honum síðustu nótt.

Söguleg fermingarveisla í millitíðinni.
Þetta var góður dagur.

Bloggans

Ég virðist vera eina manneskjan í heiminum sem lendi í vandræðum með að nota w.bloggar. Allavega hef ég ekki séð kvartanir frá neinum öðrum. Kannski er þetta tákn frá Gvuði um að ég eigi alls ekki að drepa náunga minn úr leiðindum með óhóflega löngum færslum.

Af margháttaðri geðsýki minni

Ég hef ekki farið í Bónus nema einu sinni síðan á Þorláksmessu en nú er Pysjan í sveitinni og Byltingin ekkert að stressa sig á því að taka bílpróf, svo ég neyddist til að sjá um páskainnkaupin sjálf.

Ekki hefur langtímafráhald frá stórmörkuðum minnstu áhrif á mannmorsfóbíuna í mér og þetta er líklega ekki besti dagurinn til að æfa sig. Finn hendurnar kólna upp, kjálkana læsast saman, kokið verður eins og sandpappír, blessunarlega því það er þá of sársaukafullt að hleypa öskrinu út til að það gerist óvart. Halda áfram að lesa