Tískuröskun

Skærbleik húfa, rauðar ökklasíðar buxur og bláir sokkar hljóta að benda til sértækrar tískuröskunar.

Gaurinn sem telst víst bjartasta vonin í tískuheiminum klæðir sig einmitt þannig. Pant versla í Hagkaupum.

Heilkennið

Eitthvert undarlegt heilkenni hefur verið áberandi hjá mínu heimilisfólki undanfarið. Það lýsir sér í tómum sjampóflöskum sem stillt er upp á baðkarsbrúninni í stað þess að rata í ruslið, tómum krukkum og smjörvaöskjum sem eru settar í kæliskápinn, en ekki í ruslið eða enduvinnslukassann) og tómum morgunkornspökkum og öðrum umbúðum sem er troðið í yfirfullan þurrefnaskápinn en ekki endurvinnslukassann.

Ég veit ekki hvort þetta ætti frekar að kallast umbúðaheilkenni eða ruslasöfnunarheilkenni en samkvæmt minni reynslu er það ólæknanlegt. Ég hef að vísu ekki reynt þá aðferð að æpa mjög hátt og skella hurðum. Ég bara nenni því ekki. Það eru hvort sem er ekki nema 7-8 ár þar til þeir verða báðir fluttir að heiman.

Félagsskítur

Þegar sunnudagskrossgátan og Boston Leagal eru hápunktar vikunnar, getur það þá ekki verið vísbending um að félagslíf manns sé frekar bágborið?

Með auga mannfræðingsins

Sit á kaffihúsi, vopnuð lappanum, sunnudagskrossgátunni og þröngum bol.
Þarf að vinna í dag og býst ekki við að það yrði vel séð að ég tæki borvélina og lóðboltann með á kaffihús en hér er svosem ekki feitan gölt að flá hvort sem er. Einn sem virðist geðþekkur og lítur út fyrir að vera hér af sömu ástæðu og ég (vanta félagsskap við hæfi) en hinsvegar ekki í sama tilgangi. Ég er hér til að verða mér úti um maka en hann er sennilega í ástarsorg ef marka má fas og svipbrigði. Halda áfram að lesa

Frávik

Eva: Ég elska þig eins og Alan Shore elskar Denny Crane.
Ljúflingur: Á sama hátt eða jafn mikið?
Eva: Hvorttveggja.
Ljúflingur: Þú heldur í alvöru að lífið sé sápuópera er það ekki?
Eva: Það er það. Þótt þú sért ekkert líkur Denny Crane. Og ekki ég Alan Shore þótt ég sé háð þér.
Ljúflingur: Ég elska þig eins og nörd elskar frávik.
Eva: Þú heldur í alvöru að undantekningar sanni reglur er það ekki?
Ljúflingur: Nei. Ég held að meiri sannleikur felist í frávikinu en fjöldanum.
Eva: Þessi undarlega ást okkar er frávik. Eða allavega samband okkar.
Ljúflingur: Ég held að ást sé yfirhöfuð frávik.

Að þekkja týpurnar

Það er alls ekki auðvelt að sjá í hendi sér hvort sá/sú sem þú ert að reyna að mynda tengsl við er hamingjuþjófur. Það hjálpar þó til að hafa eftirfarandi atriði í huga:

-Taktu ekkert mark á því sem fólk segir. Skoðaðu frekar það sem það gerir. Halda áfram að lesa