Dæmigert sumar

Byltingin farin austur á land með lítinn prímus og kaffikönnu í bakpoka. M.a.s. með hatt sem er ekki óáþekkur hatti Snúðs í Múmíndal. Pysjan, sem er ekki lengur Pysja, virðist ætla að hafa dvelja sumarlangt í Baunalandi.

Ég er sumsé kona einsömul sem merkir að sumarið er byrjað. Það fór aldrei svo að ég yrði verkefnalaus, þótt liti helst út fyrir að Mammon hefði ákveðið að senda mig í sumarfrí, þvert á móti er allt í drasli heima hjá mér og ég hef ekki ennþá ráðist í það metnaðarfulla verkefni að skila bókhaldinu af mér með einhverju sem nálgast það að geta kallast „með sóma“.

Allt stendur þetta til bóta. Ég er búin að raða niður verkefnum með svefntíma, bloggpásum og m.a.s. matarhléi á hverjum degi. Á sunnudaginn ætla ég að vera í sumarfríi heilan dag. Þá verður bókhaldið farið heim til sín, allt spikk&span hreint á rúminu, sunnudagskrossgáta og kappútsínó og allt verður fullkomið.

Uppdeit

Það er ekki endilega samhengi á milli fréttagnægðar og bloggafkasta. Sem stendur eru aðstæður á þessa leið:

-Sveitamaðurinn er farinn til Danaveldis að smíða minkabúr, Byltingunni til mikillar armæðu. Sagt er að prinsinn brosi hringinn í Baunalandi og hafi aukið orðaforða sinn úr já og nei í jahá, jájá og neeejneii.

-Byltingin er búin að stinga anarkistabibblíunni í bakpoka ásamt hreinum sokkum (ósamstæðum) og tannbursta og hyggst halda austur á land í dag, til að uppræta framkvæmdir við Kárahnjúka eða í versta falli að kalla aldalanga bölvun yfir útsendara Landsvirkjunar.

-Elías truflaði ástargaldurinn minn, en nú er fullt tungl í nótt og mun ég þá gera aðra tilraun. Ennfremur mun ég kalla minniháttar bölvun yfir forkólfa Bílastæðasjóðs. Ekkert rosalegt samt. Bara svona sýnishorn af bölvun eins og t.d. að finna langt svart hár í matum sínum eða að reka við með miklum fnyk og látum í viðurvist fagurra kvenna.

Gullkvörn

Strákarnir mínir gáfu mér flottustu afmælisgjöf sem ég hef nokkurntíma fengið. Töfragrip sem heitir Gullkvörn og fylgja henni tveir Mammonsgaldrar, einn til að redda sér pening í hvelli (ég er búin að prófa hann og það tókst vel) og svo annar til að verða ríkur. Til að hann virki þarf maður reyndar að eiga eignir umfram skuldir svo það er ekki alveg tímabært að láta á hann reyna. Ég hef fulla trú á honum enda eru báðir galdrarnir svo líkir mínum stíl að ef ég vissi ekki betur, héldi ég að ég hefði skrifað þá sjálf.

Það reddast

Þegar ég blogga ekki dögum saman er það undantekningalaust merki um mikla vinnu. Ég reiknaði reyndar með því fyrir einni viku að vinnan væri að snarminnka (og þar með tekjurnar) en það eru ekki örlög mín að vera blönk.

Málarinn er semsagt búinn að vera stuði og ég er besta módel sem hann hefur haft, segir hann. Útilokað að ég nenni að standa í því að sýna afraksturinn á blogger en bráðum, bráðum ætlar Anna að hjálpa mér að setja upp almennilega vefsíðu og listamaðurinn er þegar búinn að gefa góðfúslegt leyfi fyrir birtingu.

Ég þarf samt að fara á stúfana og finna eitthvað meira að gera um leið og ég get verið dagpart frá búðinni. Málarinn hefur ekki grætt krónu á þessum myndum ennþá og getur varla haldið mér á floti mjög lengi. En það reddast. Það eru örlög mín ap reddast. Ég ákvað fyrir margt löngu að hafa það þannig.

Sniff

Æ Elías.

Hjartað í mér sýgur alltaf pínulítið upp í nefið þegar hann fer en kommonsensinn er verulega ánægður.

Og daginn eftir kemur sæti sölumaðurinn í Nornabúðina og spyr hvort ég eigi galdur til að hætta að reykja.

Þetta er greinilega hægt

Keli kom og fór. Öll fjölskyldan kom í heimsókn í Nornabúðina og við áttum mjög ánægjuleg stund saman.

Ég hef aldrei skilið almennilega hvað fólk á við með því að „hafa gaman af börnum“, rétt eins og börn séu einhver ákveðin dýrategund. Börn eru jafn mismunandi og annað fólk og ég hef gaman af því að umgangast skemmtileg börn sem kunna sig en hef lítið úthald gagnvart væluskjóðum og frekjugrísum. Stillt og kurteis börn eru oft hlédræg og feimin en dætur Kela og Linditu eru lifandi sönnun þess að vel er hægt að kenna börnum mannasiði án þess að þau verði bæld og ósjálfstæð. Telpurnar eru opnar og ákafar, áhugasamar um allt sem fyrir augu ber, spyrja mikið og hafa mikið að segja en eru þó svo prúðar að þær snerta ekkert í leyfisleysi og biðja m.a.s. um orðið með því að rétta upp hönd ef margir eru samankomnir.

Bæði Huldu Elíru og Mirjam langaði í sama hálsmenið en það var bara eitt til. Á mörgum heimilum hefði það kostað rifrildi og fýlu fram eftir degi en þessar stelpur leystu málið í algerri friðsemd. Ég hef enga trú á því að svona börn verði til fyrir einskæra heppni. Ég legg því til að foreldrar þeirra hætti að vinna fyrir norska ríkið og taki þess í stað að sér uppeldiskennslu. Þau gætu ferðast um heiminn og notað telpurnar sem auglýsingu. Ég er allavega viss um að margir myndu borga morð og milljón fyrir önnur eins börn.

Garún Garún

Að taka frið og vinsemd fram yfir stríð er ekki það sama og að vera tilbúinn til að láta valta yfir sig.

Þumalputtaregla sem hefur reynst mér vel hljóðar svo:
-Ef ég elska þig færðu tækifæri til að fara illa með mig. Eitt tækifæri. Ef þú notar það verða þau ekki fleiri.
-Ef ég elska þig ekki færðu ekki tækifæri til að fara illa með mig. Þú getur reynt það en þú tekur þá líka afleiðingunum.

Ég mæli eindregið með því að þú takir þennan draugagang út á einhverjum öðrum en mér. En ef þú vilt leiðindi, -þá geturðu fengið þau.