Til að allt sé á hreinu…

Bara svo það sé á hreinu og allir meðvitaðir um þakklæti mitt og hrifningu, þá var það galdravefarinn Ásta sem setti upp vefsíðuna fínu og fullkomu fyrir Nornabúðina og tók grilljón og eina mynd. Hún hefur sumsé ekki slegið mér örlagavef, heldur Nornabúðarvef ef einhver skyldi hafa misskilið titilinn sem ég gaf henni á tengli, bæði hér og hér.

Það var hinsvegar Anna sem trixaði síðuna þannig að hin tölufatlaða og lagfæringaóða norn gæti grautað í henni án þess að klúðra myndum, letri og fyrirsögnum í hvert sinn, fyrir nú utan það að gera mér fært að blogga án þess að streða við Blogger.

Snorri (hinn vefsíðulausi) tók svo myndirnar (sem eru væntanlegar) af allkonar dóti sem hefur bæst við á síðustu mánuðum.

Hamingja mín með þetta allt saman er takmarkalaus og mun þessa englum líka fólks getið að góðu í ævisögu minni.

Ég skal!

Það er náttúrulega ekki heilbrigt að sitja skjálfandi undir sæng og borða ís en nú er Kuldaboli búinn að spilla fyrir mér mörgum dögum og ég ætla ekki að láta hann hafa af mér ánægjuna af því að borða ís.

 

Ég lýga (Óli pýga?)

Var að tala við mann á netinu. Fæddan og uppalinn á Íslandi. Hann sagðist lýga hafa gaman af leikhúsi og bað um símmanúmmerið mitt. Ég geri ekki kröfu um fullkomna stafsetningu eða málfar en ég ætla samt ekki sleppa takinu á fordómum mínum gagnvart þeim sem skrifa lýga.

Í alvöru talað, er enginn þarna úti sem er til í að kynna mig fyrir frambærilegum karlmanni? Hundraðþúsundkall í boði handa þeim sem kynnir mig fyrir þeim sem ég mun búa með þegar strákarnir eru flognir úr hreiðrinu.

 

Gúrkublogg

Ég kann ekki vel við Kuldabola. Hann er búinn að bíta mig svo illa síðustu daga að mér er kalt í beinunum þótt ég sé undir sæng með lokaðan glugga og ofninn á fullu. Svo hrekur hann viðskiptavinina mína inn í Kringlu helvískur. Nóvember ætlar að fljóta á kynningum svo líklega ætti ég ekki að kvarta en tilhugsunin um að sitja í kuldanum og lóða víra í allan dag vekur mér fullkomið ógeð.

Bíllinn minn er skítugur og búðargluggarnir líka en ég get ekki hugsað mér að láta unglingana mína sulla í vatni í þessum kulda.

Ég kann ekki almennilega við þetta letur. Finnst það of lítið og klesst en kann ekki að breyta því. Grey Anna. Ég mun ekki láta hana í friði í marga daga eftir að hún kemur heim.

 

Er að flytja

hingað.

Bloggflutningar eru næstum eins og að flytja á milli húsa. Maður þarf að henda út rusli og fara aftur á gamla staðinn til að sækja alls konar stöff.

Ég er mjög ánægð með nýja staðinn en hann er ekki orðinn „heima“ ennþá því dótið mitt er ennþá hérna og ég þarf að bíða eftir að Anna komi heim frá útlöndum (hún er að heimsækja Ken) því hún ætlar að hjálpa mér. Dugar víst ekkert að kalla á sterka stráka til að flytja tengla og vefbókarfærslur.