Ef gult væri blátt væri rautt

-Ef mín nýtur allt í einu ekki lengur við. Ef ég flyt t.d. til útlanda, muntu þá fá þér nýja hjákonu?
-Vinkonu. Það heitir ekki hjákona nema maður sofi hjá henni.
-Það heitir hjákona ef konan þín má ekki vita um sambandið.
-Hún veit ekkert um alla sem ég hitti.
-Jæja. Segðu henni frá sambandi okkar og spurðu hana hvað hún viji kalla það.
-Ókei, köllum það það sem þú vilt.
-Og muntu finna þér aðra ef ég verð ekki til staðar?
-Ég skal reyna svara því ef þú svarar mér líka. Ef ég væri einn, en allt væri að öðru leyti eins, myndir þú vilja búa með mér? Ég veit að þú vilt alveg svara mér heiðarlega en geturðu það?
-Málið er bara að það væri aldrei allt eins að öðru leyti. Það yrðir þú sem gæfist upp. Þér finnst gott að láta kúga þig en hjá mér yrðir þú að taka ábyrgð á þér sjálfur og höndla frelsið sem fylgir því. Þú réttlætir samband okkar með því að þú getir ekki verið einn en með mér þyrftirðu aldrei að vera einn og hefðir þar með enga afsökun fyrir að hitta einhverja aðra. Ég yrði ekki afbrýðisöm út í neinn nema tíkina þína og hún tæki þér ekki aftur ef þú færir frá henni svo þú þyrftir ekki að fela neitt og þar með yrði þetta ekki nógu spennandi fyrir þig.
-Þú svaraðir ekki spurningunni.

Nei, líklega svaraði ég henni ekki en það er ekki vegna þess að ég hafi ekki svar. Ég gæti búið með þér hjartað mitt, það gæti ég vel. En ég veit ekki hvort ég myndi afbera það að missa þig.

Gvuð er til og kannski…

Ég ætlaði svona varla að tíma að eyða sunnudagskvöldi í stefnumót en ég var búin að sjá hann í svip og fannst hann svoooooo sætur. Búin að galdra fullt en bjóst samt ekki við neinu en hann er BARA skemmtilegur. Og klár. Og pabbi.

Drottinn minn djöfull langar mig að sofa hjá honum.

 

Og eitt enn…

Og eitt í viðbót sem þú verður að skilja: andúð þín á mönnunum stendur í beinu samhengi við sorgina yfir því að eiga ekki heima í veröldinni.

Carmen ólst að hluta til upp í klausturskóla. Harður agi og mamma víðs fjarri. Hún hataði klaustrið, átti til að sýna ögrandi framkomu og nunnurnar sýndu henni kulda og afskiptaleysi. Ein nunnan hélt mikið upp á vinkonu hennar og var góð við hana, kannski af því að hún var glaðlynd og sátt við skólann. Jafnaðargeð vinkonunnar fór í taugarnar á Carmen. Einu sinni sátu vinkonurnar í svefnsalnum og töluðu saman. Þær voru bara tvær inni. Nunnan sem hélt upp á vinkonuna kom inn til þeirra og gaf henni konfektmola. Hún virti Carmen ekki viðlits. Vinkonan bauðst ekki til að skipta molanum með henni.

-Ég hef borðað marga konfektmola síðan, en sá eini sem ég man eftir er þessi sem ég fékk ekki, sagði hún mér 20 árum síðar. Hún tók ekki fram að hún hefði hatað þær báðar næstu dagana en ég veit að hún gerði það. Ekki af því að hún öfundaði vinkonuna af sælgætinu eða af því að eiga verndara innan klaustursins, heldur af því að samband þeirra vakti í henni heimþrána.

Þegar allt kemur til alls hefur fólkið sem ég og þú hötum sjaldnast svikið okkur um konfektmolann sem það hefði getað deilt. Yfirleitt hefur það ekki gert neitt af sér, annað en að vera sátt við hlutskipti sitt í heiminum.