Tsssjúh!

Áður en ég fór í jólafrí sagði ég Búðarsveininum að ég ætlaði að nota tækifærið og taka út öll veikindi sem mætti búast við næsta árið fyrst ég væri heima í afslöppun hvort sem væri. Ég veiktist þó ekki fyrr en í gær og er búin að vera eins og draugur í dag. Hnerrandi draugur með hálsbólgu. Druslaðist ekki í vinnuna fyrr en um 11 leytið. Við Anna vorum búnar að plana skrabblkvöld en ég ákvað að fara frekar heim í bælið og ná þessu úr mér.

Fullt tungl í dag. Ég eyddi einu símanúmerinu enn úr gemsanum mínum. Það er ótrúlega árangursríkur smágaldur sem útheimtir hvorki þekkingu né viljastyrk.

 

Hreinar línur

-Þegar maður er frávik skiptir máli að einhver skilji mann. Þú skilur mig betur en nokkur annar. Allavega hefur enginn verið jafn góður við mig og þú.
-Næs að heyra skjall en ég er ekki nógu vitlaus til að kaupa það. Þú segir þetta til að styrkja jákvæða hegðun svo ég verði ennþá betri við þig,
sagði hann og kímdi.
-Ég er að tala í einlægni elskan mín, og ég hef ekki einu sinni ástæðu til að skilyrða þig því nú verðum við að slíta þessu sambandi.
-Já. Þig vantar maka og ég er fyrir þér. Halda áfram að lesa

Nú er nóg komið!

Lauslega áætlað hef ég, á síðustu 9 dögum, troðið í minn litla skrokk tæpu kílói af kjöti, minnst 200 gr af feitum osti, hálfum lítra af rjóma og öðru eins af ís, lítra af borðvíni og 1 dl af púrtvíni, þremur lítrum af kaffi og 500 gr af súkkulaði, fyrir utan mjólk, smjörsteikt grænmeti og hvítt brauð (líka með smjöri). Lítið hefur hinsvegar farið fyrir jurtaseyði, hráu grænmeti og ávöxtum og þótt rækjur séu kannski skárri en kjöt geta þær tæpast talist heilsufæði þegar búið er að kaffæra þær í mæjonesi og sýrðum rjóma. Á þessum tíma hef ég borðað samtals eina máltíð sem er beinlínis hægt að kalla heilsusamlega. Halda áfram að lesa

Áramótakveðja

Heillaóskir í upphafi nýs árs sendi ég öllum sem eiga skilið að njóta hamingju og velgengni. Megi börn ykkar blómstra, bankareikningar ávaxtast og heilbrigði, skemmtilegheit og sköpunarkraftur einkenna líf ykkar.

Skíthælar og ógeðspöddur mega mér að sársaukalausu upplifa verulega skítt ár og fólin sem réðust á frænda strákanna minna án tilefnis, í nótt og höfuðkúpubrutu hann sér til skemmtunar vona ég að eigi eitthvað verra í vændum en íslenskt réttarkerfi býður upp á.

Hið ljúfa líf

Búin að fylla kalkúninn, bleyta tertuna, taka rækjurnar úr frysti, koma víninu í kæli, skúra yfir íbúðina og strauja kjólinn. Er endurnærð en fór samt seint á fætur. Það er helvíti fínt að liggja í bælinu að ástæðulaustu svona 3 morgna á ári Einnig búin að skrifa dreifingarstjórum Blaðsins og Fréttablaðsins þar sem ég geri þeim grein fyrir áramótaheiti mínu um að uppræta flæði ruslpósts inn á heimili mitt (skrifleg afþökkun á póstkassanum er iðulega að engu höfð) þótt það kosti það að ég þurfi að hella heilu vörubílshlassi af rusli á tröppurnar hjá þeim.

Ég sárvorkenni fólkinu sem setti jólatréð upp 10. desember og er komið algjört ógeð á því núna. Það er góð ástæða fyrir því að ég byrja seint að jóla. Jólin standa nefnilega til 6. janúar og ég hef gert það að venju að njóta hvers einasta jóladags. Það eru varla fleiri en 50 nálar hrundar af trénu mínu enn og mér líður svooo vel hérna heima. Ætla að leggjast í dekurbað með andlitmaska og leggjast svo í bóklestur með kertaljósum púrtvíni og nougatkonfekti alveg þar til ég þarf að fara að hræra í sósunni.

Hversu fullkominn getur einn gamlársdagur orðið?