Upp, upp mín sál

En svo var ég að átta mig á því bara núna rétt áðan að ég þekki 2 pör í viðbót sem eru búin að vera saman mjög lengi. Alveg bara rosalega lengi og eru dálítið líkleg til að gera það áfram. Ég mundi ekki eftir þeim þarna um daginn. Ég þekki sumsé 12 pör sem hafa lafað saman í meira en 10 ár. Og það er nú alveg dálítið. Svo kannski gengur sambúð upp í einhverjum tilvikum.

Kannski.

Ég er í nýrri peysu. Það er næstum eins gott og að vera elskuð. Stelpur, konur, kerlur ef ykkur vantar egóbúst, ekki þá eyða pening í sálfræðing eða reyna að draga komplíment út úr karlmanni. Farið til stílista í Debenhams. Hún sagði mér að ég hefði fullkomið vaxtarlag. Ég veit að hún er bara í vinnunni en hún sagði það samt þannig að ég trúði því. Og það kostar ekkert.

Eitt hugs um staðfestingar og fordóma

Fyrir tæpu ári trúði ég því að dömuskór í mínu númeri væru einfaldlega ófáanlegir nema kannski í Kolaportinu, notaðir með snúnum hæl úr einhverju dánarbúinu. Ég leitaði og leitaði, spurði og spurði, réðst á litlar gular konur á götu og yfirheyrði þær um skókaup sín (þær fá sína skó senda frá Thailandi) hringdi út um allar trissur og bað alla sem ég þekkti að hafa augun opin. Halda áfram að lesa

Missti trúna

Ég hefði varla trúað því að óreyndu að ég tæki skilnað fólks sem kemur mér ekkert við svona nærri mér. Ég er heldur ekkert svo uppvæg yfir fjölskylduharmleiknum, þau setja áreiðanlega alveg nóg púður í hann sjálf, það er öllu heldur geðshræringin yfir því að trú mín á ástina hefur skaddast enn eina ferðina og var hún örótt fyrir. Halda áfram að lesa

Húsráð Lærlingsins

Nornin: Þetta er eitt af hinum tilvistarkreppandi vandamálum ríka mannsins. Ég hef gaman af því að fá vín með matnum eða rjómalíkjör með kaffinu af og til en ég get ekki drukkið mikið. Svo er áfengi nautnavara en ekki nauðsyn og þegar ég á fullt af útrunnu víni heima, finnst mér ekki siðferðilega stætt á því að kaupa nýtt.

Lærlingurinn: Þú þarft ekkert að henda því sem skemmist. Þú bara gefur rónunum það. Þeim er alveg saman þótt rjómalíkjörinn sé farinn að súrna eða vínið langstaðið. Þú ferð með gamalt brauð niður að tjörn og gefur öndunum og svo með gamalt vín upp á Arnarhól og gefur rónunum. Kaffihús og krossgáta á eftir. Yrði það ekki bara góður sunnudagur?

Kannski bara það. Og ég sem var næstum búin að henda tæpum lítra af rósavíni síðan um áramót. Að mér skyldi ekki detta þetta í hug sjálfri. Kannski ég rölti niður í Austurstræti og kaupi mér karamellulíkjör.