Kaldastríðskynslóðin

Þessi færsla spratt að umræðum um pistil minn um verðbólgukynslóðina sem ég endurbirti á Eyjunni í nóvember 2012 sem svar við fullyrðingum Sighvatar Björgvinssonar um sjálfhverfu kynslóðina.

Þegar ég birti pistilinn um verðbólgukynslóðina fyrst í apríl 2005, gerði einn lesenda athugasemdir við hugtakanotkun mína. Í eftirfarandi pistli svara ég honum.
——–

Kaldastríðskynslóðin

sveppurTorfi Stefánsson spyr um hugtakanotkun mína í fyrri pistli. Hann efast um að sé rétt að tala um mína kynslóð sem „kaldastríðskynslóðina“. Rökin eru þau að  mín kynslóð sé firrt, hafi alist upp á diskótónlist og lítinn áhuga sýnt á pólitík. Einnig að hans eigin kynslóð hafi líka búið við kalt stríð og geti því alveg eins kallast kaldastríðskynslóð.

Jú Torfi, ég er af kaldastríðskynslóðinni. Kalda stríðið stóð frá stríðslokum og samkvæmt mínum sögubókum lauk því með falli Berlínarmúrsins 1989. Kalda stríðið náði frostmarki með vígbúnaðarkapphlaupinu. Gereyðingarógnin sem mín kynslóð ólst upp við var ekkert óraunverulegri þótt við skildum ekki pólitík.

Munurinn á pólitískri vitund blómabarnanna og diskókynslóðarinnar var helst sá að við höfðum engan málstað að verja. Það var ekkert stríð til að mótmæla, ekkert til að æsa sig yfir. Við vorum bara lömuð. Ungu fólki er eðlilegt að keyra áfram á ástríðum og margir æstu upp í sér kvíða og ótta, kannski af því að þeir höfðu ekki næga ástæðu til að vera reiðir. Við hlustuðum á klukkuna tifa og litum upp í himininn til að skimast um eftir svepplaga skýi. Slógum svo öllu upp í kæruleysi þar sem við gátum hvort sem var ekkert gert og notuðum tímann til að skemmta okkur. Diskóið var ekki pólitískt nei en kannski var það bara það sem við þurftum.

Þín kynslóð Torfi, er ekki kaldastríðskynslóð í sama skilningi, því þótt kalt stríð hafi verið í gangi var eitthvað að gerast, ekki bara ógnvænleg bið.

Það var þetta aðgerðaleysi, þessi bið sem einkenndi mín unglingsár. Og þessvegna erum við svona firrt.

 

Til heiðurs verðbólgukynslóðinni

spariKaldastríðskynslóðin

Kynslóð mín er firrt.

Kaldastríðskynslóðin hafði hvorki pólitíska vitund né tónlistarsmekk á táningsárunum. Við sáum enga ástæðu til að fara í mótmælagöngur því það var engin heimsstyrjöld í gangi baragjöreyðing yfirvofandi. Lítið við því að gera svo við fórum bara á diskótek. Kunnum ekki einu sinni að nota fíkniefni að ráði. Í dag erum við kortakynslóðin og ennþá jafn veruleikafirrt. Lifum á pizzum. Ölum börn okkar upp við efnishyggju sem gengur geðbilun næst og skuldum meira en við eigum nokkurn tíma eftir að afla. Ljótu lúðarnir. Halda áfram að lesa

Orðasvipan hreinskilni

Eitt þeirra orða sem sumt fólk (fáir þó held ég og vona sannarlega að ég hafi rétt fyrir mér) notar sem svipu á aðra er orðið hreinskilni. Mér finnst afskaplega ógeðfellt þegar fullorðið fólk beitir aðra persónulegum dónaskap eða gefur óviðeigandi upplýsingar um skoðanir sínar á öðrum, undir yfirskini hreinskilni eða jafnvel heiðarleika. Móðgunin sjálf getur verið nógu slæm en þegar viðkomandi ætlar að svara fyrir sig er umsvifalaust stungið upp í hann með einhverju á borð við; „afsakaðu ef ég hef móðgað þig en ég er bara svo hreinskilinn“. Með þessu er möguleiki þolandans á því að halda reisn sinni tekinn frá honum nema hann sé þeim mun harðari í horn að taka. Halda áfram að lesa

Þú mátt fá’ana því ég vil ekki sjá’ana

rassEinhverntíma í síðustu viku heyrði ég (í fréttum RÚV) sagt frá könnun sem sýndi að mjög hátt hlutfall bandarískra telpna á grunnskólaaldri (mig minnir allt að 40% 10 ára stúlkna) töldu sig vera of feitar. Þetta hljómar skelfilega. Erum við virkilega búin að innræta börnum staðlaðar ímyndir um það hvernig fólk eigi að líta út, svo freklega að þau þjáist af óþarfa útlitskomplexum strax í grunnskóla? Á fréttinni var allavega ekkert annað að skilja. Halda áfram að lesa

Orðasvipan afneitun

Ég hef dálítið velt því fyrir mér undanfarið hvernig við notum orð sem svipur á hvert annað þegar skynsamleg rök þrýtur. Sum orð virðast áhrifameiri en önnur og til þess fallin að þagga niður í viðmælandanum. Ég ætla að skrifa nokkrar færslur um þau orð sem hafa verið notuð sem svipur á mig (virkar að vísu ekki, mér finnst gott að láta lemja mig) og sem ég hef staðið sjálfa mig að að nota á aðra.

Afneitun er alveg rosalega vinsæl orðasvipa. Fyrir nokkrum árum heyrði ég þetta orð aðallega notað um alkóhólista sem vildu ekki horfast í augu við vandann og afturbataalkar notuðu þetta einnig um fólk sem þá langaði til að væru í sömu þörf fyrir meðferð og þeir sjálfir.

Ég veit ekki hvort notkun orðsins hefur aukist en síðustu árin hefur það gerst oftar og oftar að þetta orð, afneitun, hefur verið notað í þeim tilgangi að reyna að stinga upp í mig eða gera lítið úr mér og ég hef séð þetta notað þannig gegn öðru fólki líka. Nokkur dæmi: Halda áfram að lesa

Af hverju Fischer?

Ég skil ekki alveg þetta fjaðrafok í kringum Bobby Fischer. Ég hef raunar ekkert á móti því að karlinn komi hingað, skil bara ekki lógíkina í því að standa í einhverju veseni fyrir hann þegar fólki sem lifir við skort, stríðsástand, og mannréttindabrot og hefur ekkert af sér gert nema kannski að hafa skoðanir sem stjórnvöldum hugnast ekki er unnvörpum neitað um pólitískt hæli. Ætli séu ekki einhver sympatískari fórnarlömb en Bobby Fischer í hópi þeirra sem hafa fengið synjun á síðustu árum? Halda áfram að lesa