Af hverju Fischer?

Ég skil ekki alveg þetta fjaðrafok í kringum Bobby Fischer. Ég hef raunar ekkert á móti því að karlinn komi hingað, skil bara ekki lógíkina í því að standa í einhverju veseni fyrir hann þegar fólki sem lifir við skort, stríðsástand, og mannréttindabrot og hefur ekkert af sér gert nema kannski að hafa skoðanir sem stjórnvöldum hugnast ekki er unnvörpum neitað um pólitískt hæli. Ætli séu ekki einhver sympatískari fórnarlömb en Bobby Fischer í hópi þeirra sem hafa fengið synjun á síðustu árum?

Bobby Fischer braut viðskiptabann við Júgóslava með þessari margumræddu skák sinni við Spaskí. Okkur finnst það kannski lítilfjörlegur glæpur að tefla skák en Fischer vissi alveg í hvaða vandræði hann var að koma sér með þessu. Hann braut þetta viðskiptabann vegna eigin hagsmuna en tók ekki þátt í skákmótinu til að vekja athygli umheimsins á mannréttindabrotum eða neitt í þá veruna svo það er nú varla hægt að flokka hann sem samviskufanga.

Eins og ég sagði hef ég ekkert á móti því að Bobby fái landvistarleyfi hér og ríkisborgarétt ef því er að skipta. En ef forsendur þess að fólk sem á óuppgerð málí sínu heimalandi fái að búa hér eru þær að það hafi á einhvern hátt vakið athygli á Íslandi á alþjóðavettvangi og lýst því yfir í fjölmiðlum að skyr sé góður matur, þá held ég að heimóttarháttur okkar gagnvart flóttafólki sé álíka alvarlegt vandamál og meðferð Japana á Bobby Fischer. Kannski við ættum að taka til heima hjá okkur áður en við göngum lengra í því að leiðrétta mannréttindastefnu annarra ríkja.