Eitt þeirra orða sem sumt fólk (fáir þó held ég og vona sannarlega að ég hafi rétt fyrir mér) notar sem svipu á aðra er orðið hreinskilni. Mér finnst afskaplega ógeðfellt þegar fullorðið fólk beitir aðra persónulegum dónaskap eða gefur óviðeigandi upplýsingar um skoðanir sínar á öðrum, undir yfirskini hreinskilni eða jafnvel heiðarleika. Móðgunin sjálf getur verið nógu slæm en þegar viðkomandi ætlar að svara fyrir sig er umsvifalaust stungið upp í hann með einhverju á borð við; „afsakaðu ef ég hef móðgað þig en ég er bara svo hreinskilinn“. Með þessu er möguleiki þolandans á því að halda reisn sinni tekinn frá honum nema hann sé þeim mun harðari í horn að taka.
Það á ekkert skylt við hreinskilni að segja fólki í óspurðum fréttum að það sé illa klætt, eigi leiðinlega foreldra, hafi óþægilega rödd eða annað sem hefur í raun ekki annan tilgang en þann að særa og niðurlægja. Það hefur heldur ekki alltaf göfugan tilgang að segja allan hug sinn jafnvel þótt maður sé spurður. Stundum skiptir meira máli að sýna manngæsku en heiðarleika. Ég myndi t.d. miklu frekar ljúga því að konu sem ég þekki lítið að mér þætti fokdýri, nýi kjóllinn hennar fallegur en að eyðileggja fyrir henni daginn með óþarfa hreinskilni.
Sjálf hef ég sjaldan orðið fyrir hreinskilni af þessu tagi enda virðist mér sem það sé algengast að þeir sem móðga fólk með óviðeigandi „hreinskilni“ beini spjótum sínum að þeim sem eru almennt frekar varnarlausir eða nýti sér aðstæður þar sem þolandinn er ekki í aðstöðu til að svara fyrir sig. Vinkona mín sem vinnur við afgreiðslu hjá virtu stórfyrirtæki varð t.d. einu sinni fyrir því að kúnni fór að setja út á hárgreiðslu hennar. Það er frekar erfitt fyrir fólk í þessari stöðu að segja kúnnanum að snarhalda kjafti. Vinkona mín er að vísu fullorðin, frekar klár og vön því að svara fyrir sig svo hún fann heppilegt orðalag til að benda manninum á að honum kæmi hennar hárgreiðsla ekki við en óframfærinn unglingur á kassanum í Bónus hefði sennilega bara kyngt skensinu eða kannski reynt að afsaka sig.
Það hallærislegasta við fólk sem beitir þessari svipu, er að það er yfirleitt hreint ekkert hreinskilnara en aðrir. Það er ekkert líklegra til að halda skoðunum sínum fram þegar um er að ræða hluti sem skipta máli og því síður er það líklegra til að vera hreinskilið gagnvart sjálfu sér.